Páll Magnússon á leið á þing

Páll Magnússon.
Páll Magnússon. mbl.is/RAX

Páll Magnússon fjölmiðlamaður mun leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, en öll atkvæði hafa verið talin. Páll fékk 45,4% atkvæða í fyrsta sætið. Næstir honum á listanum eru alþingismennirnir Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, er í fjórða sæti listans og Unnur Brá Konráðsdóttir alþingismaður er í fimmta sæti, en þær skipuðu tvö efstu sætin fyrir síðustu kosningar. Alls munaði 55 atkvæðum á Vilhjálmi og Ragnheiði Elínu í baráttunni um þriðja sætið og er það mun meiri munur en þegar helmingur atkvæða hafði verið talinn.

Alls tók 4.051 sjálfstæðismaður þátt í prófkjörinu en af þeim voru 150 seðlar auðir og ógildir. Á kjörskrá voru 9.568 og er kjörsókn því 42%.

Nánar um atkvæðin í prófkjörinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert