„Mér líst illa á niðurstöðuna. Það sem kom fram í ályktuninni í gær á jafnframt við um Suðurkjördæmið,“ sagði Helga Dögg Björgvinsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, í samtali við mbl.is um úrslitin í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í gær.
Landssamband sjálfstæðiskvenna sendi frá sér ályktun eftir úrslitin í Suðvesturkjördæmi þar sem karlmenn skipuðu efstu fjögur sæti listans. Í ályktuninni kom fram að jafna þyrfti kynjahlutföllinn á listanum.
Frétt mbl.is: Harma niðurstöðuna í Kraganum
Úrslitin í Suðurkjördæmi eru í svipuðum dúr. Karlmenn skipa efstu þrjú sætin en Ragnheiður Elín Árnadóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir koma næst í fjórða og fimmta sæti. Helga Dögg kunni ekki skýringu í fljótu bragði á því hvers vegna svo væri.
„Það er mjög erfitt að átta sig á því hvað veldur en það sem blasir við okkur konum í Sjálfstæðisflokknum er að konum er hafnað í þessum tveimur kjördæmum og það er mjög alvarleg staða, ekki bara fyrir konur í flokknum heldur líka fyrir flokkinn sjálfan.“
Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins eiga eftir að staðfesta uppröðun frambjóðenda í báðum kjördæmum. Helga Dögg ítrekar áskorunina sem kemur fram í ályktun sambandsins um að listanum verði breytt í samræmi við jafnari kynjahlutföll.
„Við skorum á forystu flokksins að taka af skarið og sjá til þess að raðað verði á lista samkvæmt grunngildum flokksins sem segir að jafnrétti kynjanna eigi að hafa í heiðri. Við treystum því að forystan og kjörnefndir fari að skipulagsreglum og grunngildum flokksins og bíðum átekta, það hefur ekkert heyrst enn.“
Ekki eru allir frambjóðendur á sama máli og Landssamband Sjálfstæðiskvenna. Páll Magnússon og Vilhjálmur Bjarnason hafa báðir gagnrýnt hugmyndir um að hreyft verði við úrslitum prófkjaranna. Páll sagði í samtali við mbl.is að „það væri dálítið afkáraleg afskræming á lýðræðinu ef auka ætti hlut kvenna með því að skerða lýðræðislega valkosti“.
Spurð um gagnrýnina segir Helga Dögg að ummælin dæmi sig sjálf.
Frétt mbl.is: „Hlýt að vera ánægður með þetta“