„Ég er þakklátur fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is en hann varð í öðru sæti í prófkjöri flokksins í Suðurkjördæmi sem fram fór í gær. Kjörið segist hann fyrst og fremst þakka traustu stuðningsfólki og fólkinu í kringum hann. Hann hafi tengst íbúum kjördæmisins mjög vel á þeim tíma sem hann hafi verið á þingi og sé þekktur fyrir störf sín.
Spurður hvað honum þyki um framboðslistann í kjördæminu þar sem þrír karlar skipa efstu sætin segir Ásmundur að listinn verði náttúrulega ekki endanlega klár fyrr en hann verði afgreiddur af kjördæmisráði Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Þá komi í ljós hvernig hann líti endanlega út. Niðurstöðurnar hafa verið gagnrýndar í ljósi þess að þingmennirnir Ragnheiður Elín Árnadóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir lentu í 4. og 5. sæti.
„Ég tel að það sé mikilvægt að almenn sátt verði um framboðslistann í kjördæminu og að hann endurspegli allt kjördæmið og allir fái sitt fólk á listann. Ég held að það sé verkefni næstu daga að raða saman góðum lista sem við verðum sátt við og verður sigurstranglegur í kosningunum í nóvember,“ segir Ásmundur. Hann bendir á að ákveðnar reglur gildi um prófkjör Sjálfstæðisflokksins sem frambjóðendur viti af og gangist undir.
„Kjörnefndin hefur ákveðnar heimildir til þess að breyta framboðslistanum og ég tel mikilvægt að það verði bara gert í góðri sátt ef þess gerist þörf. Við erum öll í stjórnmálum og sjálfsagt að fólk á listanum njóti þess að hafa lagt sig fram um að taka þátt í prófkjörinu. Síðan þurfum við að skapa góða heild, vinningslið. Ég vil vera í því liði,“ segir Ásmundur.