Fylgi Pírata og Vinstri grænna dregst saman um tæp þrjú prósentustig, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Fylgi Viðreisnar eykst um nærri tvö prósentustig. Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkur landsins með 25,5% fylgi.
RÚV greindi frá þessu, en könnunin var gerð 31. ágúst til 14. september.
Helsta breytingin frá síðasta Þjóðarpúlsi er að fylgi Pírata og VG minnkar. Píratar mælast með 23,1% en voru með 26% í síðustu könnun.
Fylgi VG mælist með 13,5% en í síðustu könnun var það 16%.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 25,5% sem er örlítið minna en í síðustu könnun. Fylgi Viðreisnar eykst og er nú 12,2% sem er tæpum tveimur prósentustigum meira en síðast.
Fylgi Framsóknarflokksins mælist með 9,4%, Samfylkingin er með 8,8% og Björt framtíð með 2,9%. Aðrir flokkar og framboð fá samtals 4,6% fylgi. Það er aukning um tæp fjögur prósentustig.