Á morgun fer fram tvöfalt kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins er þar í framboði, en einnig hafa þrír aðrir boðið sig fram í fyrsta sæti listans. Undanfarið hafa áhrifamenn í flokknum lagt til að Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra taki við sem formaður flokksins á komandi flokksþingi, en Höskuldur Þórhallsson, þingmaður flokksins og mótframbjóðandi Sigmundar Davíðs í Norðausturkjördæmi, er einn þeirra sem hafa sagt rétt að Sigurður Ingi taki við.
Auk þeirra Sigmundar og Höskuldar bjóða þingmennirnir Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir sig fram í fyrsta sæti listans í kjördæminu.
Kjördæmisþingið sem haldið verður núna um helgina gæti því orðið vísbending um stöðu Sigmundar Davíðs innan flokksins og möguleika hans í formannskjörinu á komandi flokksþingi. En hvað þýðir tvöfalt kjördæmisþing og hverjir eru það sem velja á lista í Norðausturkjördæmi? Mbl.is skoðaði málið.
Venjulegt kjördæmisþing þýðir að hver framsóknarfélag fær einn fulltrúa á móti hverjum tíu sem skráðir eru í viðkomandi framsóknarfélag. Þannig fá félagsmenn í því félagi eitt atkvæði á kjördæmisþinginu fyrir hverja tíu félagsmenn, en það er viðkomandi fulltrúi sem fer með atkvæðið. Þegar um tvöfalt kjördæmisþing er að ræða er fjöldi fulltrúa og í leiðinni kjörbréfa á þinginu tvöfaldaður. Það þýðir að fyrir hverja fimm skráða félagsmenn í viðkomandi aðildarfélagi er einn fulltrúi.
Í Norðausturkjördæmi eru 18 svæðisbundin félög og þrjú félög ungra framsóknarmanna. Ná félögin frá Fjallabyggð í vestri til Djúpavogs í austri.
Samkvæmt Eyþóri Elíassyni, formanni kjörstjórnar Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi eru um 370 á kjörbréfi á þinginu. Segir hann að svo verði að koma í ljós hversu margir mæti, en þingið fer fram á Skjólbrekku í Mývatnssveit og er sett á morgun klukkan 11.
Stærstu aðildarfélögin eru Framsóknarfélag Akureyrar með 94 fulltrúa, Framsóknarfélag Héraðs og Borgarfjarðar með 54 fulltrúa og Fjarðarbyggð með 45 fulltrúa. Samkvæmt Eyþóri eru önnur félög nokkuð minni.
Eftir setningu þingsins á morgun verður byrjað að kjósa um fyrsta sæti listans, en frambjóðendur fá að halda smá tölu fyrst.
Þegar fleiri en tveir eru í framboði þarf einn frambjóðandi að fá meira en 50% gildra atkvæða, en annars er kosið á milli tveggja efstu manna á ný. Þegar búið er að kjósa um fyrsta sætið er kosið um annað sætið með sömu reglum og svo koll af kolli.
Segir Eyþór að búast megi við upplýsingum um hver leiði listann fljótlega um hádegi.