„Ég er mjög uppveðraður yfir þessu, þakklátur. Þetta veitir manni mikinn kraft upp á framhaldið að gera,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í samtali við mbl.is. Hann kveðst hrærður yfir þeim mikla stuðningi sem hann hlaut í kjöri um fyrsta sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.
Frétt mbl.is: Sigmundur með afgerandi forystu
„Þetta er töluvert meiri stuðningur heldur en fyrir 4 árum,“ segir Sigmundur en þá voru aðeins tveir í framboði en ekki fjórir líkt og á kjördæmisþinginu í dag. „Vonandi boðar það árangur á nýju kjörtímabili.“
Spurður hvort hann telji þennan mikla stuðning vera fyrirboða um gott gengi í formannskjöri á flokksþingi í byrjun október segist Sigmundur vona að þar muni hann njóta góðs stuðnings einnig. „Ég held að það sé mjög mikilvægt að flokkurinn komi samheldinn til kosninga því að við erum með gríðarlega sterka málefnastöðu og öflugt lið sem er tilbúið að vinna áfram á sama grunni, þá held ég að þessar kosningar muni fara mjög vel,“ segir Sigmundur.
En nú var Höskuldur ansi gagnrýninn í þinn garð í sinni ræðu, hver eru þín viðbrögð við því? Er eftirsjá að Höskuldi af þingi?
„Það er auðvitað skrítið þegar það er einhver sem maður er búinn að vinna með lengi sem er hættur og fer í eitthvað annað. En hann hefur jú vissulega verið gagnrýninn að undanförnu þannig að það kemur kannski ekki að öllu leyti á óvart en vonandi bara heldur hann áfram vinnu fyrir Framsóknarflokkinn á öðrum vettvangi,“ segir Sigmundur og bætir við að allir hafi eitthvað fram að færa sem þingmenn þannig að í hvert skipti sem einhver hverfur á braut missi þingið eitthvað.
Skorað hefur verið á Sigurð Inga að gefa kost á sér á móti þér sem formaður flokksins, óttast þú mótframboð Sigurðar Inga?
„Það kæmi mér mjög á óvart ef hann byði sig fram gegn mér. Í ljósi fyrri yfirlýsinga hans gagnvart mér persónulega og opinberlega. En vonandi ná framsóknarmenn um allt land saman um það að stilla upp öflugri forystusveit fyrir kosningarnar. Ég hef unnið vel með Sigurði Inga í mörg ár, þekki hann vel og treysti mér til að gera það áfram,“ svarar Sigmundur.
En hvað varðar önnur möguleg mótframboð, önnur en það sem þegar er komið fram?
„Það er svo sem ekki útilokað og kannski líklegt að það komi einhver mótframboð. Ég held að oftar en ekki hafi komið einhver mótframboð gegn mér á flokksþingum en þá bara gefst tækifæri fyrir flokksmenn að segja hug sinn.“