Vilja að Íslendingar verði 800 þúsund

Óttar Proppé, formaður Bjartar framtíðar.
Óttar Proppé, formaður Bjartar framtíðar. mbl.is/Styrmir Kári

Björt framtíð vill að stefnt verði að því að Íslendingar verði orðnir 800 þúsund árið 2050. Þetta er ein af þeim ályktunum sem samþykktar voru á ársfundi flokksins sem fram fór í dag. Bent er á í ályktuninni að samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunni sé gert ráð fyrir því að Íslendingar verði að hámarki orðnir tæplega 500 þúsund á þeim tíma.

Flokkurinn ályktaði einnig um að auka þyrfti beint lýðræði á Íslandi. Til að mynda með reglulegum þjóðfundum skipuðum úrtaki úr þjóðskrá. Einnig var ályktað að þingmenn flokksins ættu að sinna vinnu sinni vel með því að starfa í þingnefndum, mæta á nefndarfundi, hafa almennt viðveru á þingfundum og taka afstöðu til mikilvægra mála.

Sömuleiðis var ályktað á þann veg að ávallt skyldi leitað nýrra og lýðræðislegra leiða við val fólks á framboðslista Bjartrar framtíðar. Þá var ályktað um landbúnaðarmál. Íslenskur landbúnaður væri fyllilega samkeppnishæfur við innfluttar landbúnaðarvörur og styðja þyrfti greinar hans í átt til sjálfbærni. Nýgerðir búvörusamningar væru í andstöðu við samkeppni og mikilvæga sátt hagsmunaaðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert