Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á ekki endilega von á því að honum berist fleiri mótframboð í stöðu formanns Framsóknarflokksins. Þetta kom fram í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
„Ég skal ekki segja, ég á ekki endilega von á því. Flestir þeirra sem hafa verið í forystu í flokknum hafa lýst því yfir, ýmist við mig eða opinberlega eða hvort tveggja, að þeir muni ekki bjóða sig fram gegn mér,“ sagði Sigmundur í samtali við Kristján Kristjánsson í þættinum.
Sveinbjörn Eyjólfsson, forstöðumaður Nautastöðvar Bændasamtaka Íslands, hefur tilkynnt um framboð sitt til formanns gegn Sigmundi.
Sjá frétt mbl.is: Sveik fyrst og fremst sjálfan sig
Sigmundur Davíð hlaut afgerandi kosningu í fyrsta sæti lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. Kosið var um fimm efstu sæti listans á tvöföldu kjördæmisþingi flokksins í kjördæminu sem hófst í gær. Marka mátti af andrúmsloftinu á þinginu að Sigmundur nýtur gríðargóðs stuðnings í kjördæminu.
„Maður getur aldrei verið alveg rólegur í pólitík, það er rétt að vera hæfilega órólegur. En ég viðurkenni að það er afskaplega þægilegt að hafa fengið svona afgerandi stuðning. Þetta veitir manni töluverðan styrk upp á framhaldið,“ sagði Sigmundur og bætti við að niðurstaðan væri góð í ljósi þeirrar baráttu sem er að hefjast fyrir alþingiskosningar sem fara fram í lok október.
Flokksþing Framsóknarflokksins fer fram 1. og 2. október næstkomandi. Sigmundur Davíð vonast til að flokksþingið þjappi flokksmönnum saman.
„Þegar menn takast á getur það haft einhver eftirmál, vonandi verða þau sem minnst,“ sagði Sigmundur, og vísaði í útgöngu Höskuldar Þórhallssonar af þinginu í gær eftir að ljóst varð að hann hlaut ekki kosningu í 1. sæti listans. „Þess vegna fannst mér mjög gott að upplifa að jafnvel fólk úr þessum hópi sem hefur verið í minni andstöðu er tilbúið að sætta sig við lýðræðislega niðurstöðu og vinna saman og hlakkar til kosningabaráttunnar.“
Spurður hvort Sigmundur Davíð muni leiða Framsóknarflokkinn í komandi alþingiskosningum sagði hann: „Ef flokkurinn veitir mér umboð til þess ætla ég að gera það. Ég er svo sannarlega galvaskur og hlakka til kosninganna.“