Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins lýsti því yfir í gærkvöldi að hann mundi bjóða sig fram til formanns á flokksþinginu sem haldið verður eftir viku, 1.-2. október.
Í samtölum við Morgunblaðið í gærkvöldi töldu margir þingmenn Framsóknarflokksins formannskjör vera til þess að róa málin en treystu sér þó fæstir til að lýsa yfir stuðningi við annan hvorn frambjóðendanna.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði eftir fund þingflokks Framsóknarflokksins í gær, að hann mæti stöðu sína innan Framsóknarflokksins góða. Meðal þeirra sem hafa lýst stuðningi við Sigmund Davíð eru Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ekki náðist í þau í gærkvöldi.