Hefur ekki áhyggjur af Viðreisn

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert

Viðreisn virðist ekki hafa áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins að mati Bjarna Benediktssonar heldur setur nýja framboðið frekar þak á það fylgi sem aðrir nýir flokkar geta fengið. Í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni sagðist Bjarni hafa minni áhyggjur af Viðreisn en ef fram væri kominn skýr valkostur við Sjálfstæðisflokkinn á vinstri vængnum.

Formaður Sjálfstæðisflokknum var spurður út í Viðreisn, en ýmsir fyrrverandi framámenn úr Sjálfstæðisflokknum, eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þorsteinn Pálsson, hafa gengið til liðs við flokkinn á undanförnum misserum.

Bjarni sagði að ný framboð hefðu oft orðið til en yfirleitt ekki orðið langlíf. Aðeins Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hefðu staðist tímans tönn. Honum hefði ekki virst að Viðreisn hefði haft mikil áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins.

Vel gæti verið að Evrópusinnað fólk sæi tækifæri í Viðreisn en sjálfum fyndist honum ótrúlegt að einhverjir teldu sóknarfæri í Evrópusinnuðu framboði um þessar mundir. Sagðist hann algerlega ósammála því að gott væri fyrir Ísland að knýja dyra hjá ESB.

Þá sagði Bjarni að ef sjónarmið sem væru Sjálfstæðisflokksmegin í tilverunni næðu betri stuðningi hjá þjóðinni teldi hann að það leiddi aðeins til góðs. Hann hefði minni áhyggjur af því en ef öfgavinstriflokkur væri farinn að taka fylgi af flokknum.

Margir óákveðnir fyrir kosningarnar

Viðurkenndi Bjarni að flókin staða væri uppi í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir og fylgi væri dreift. Sagðist hann hafa það á tilfinningunni að margir væru óákveðnir og það væri ekki ósvipað og það sem hefði gerst annars staðar. Vísaði hann til óvænts uppgangs nýrra flokka eins og Svíþjóðardemókrata, Sannra Finna, Annars kosts fyrir Þýskaland og Breska sjálfstæðisflokksins UKIP. Telja mætti Pírata í með í þessari upptalningu, sem hefðu mælst með upp undir 40% fylgi í könnunum.

Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki með þann þriðjung atkvæða sem hann hefði oft haft á landsvísu. Bjarni varaði samflokksmenn sína við því að líta svo á að þeir ættu heimtingu á stuðningi kjósenda.

Í könnunum héldi Sjálfstæðisflokkurinn ágætlega í kjörfylgi sitt en Bjarni sagði stefnuna að sækja aukið fylgi fyrir kosningar til að tryggja sterka stöðu í þinginu að þeim loknum.

Ójöfnuður gengur ekki upp á Íslandi

Brýnasta viðfangsefni stjórnmálanna sagði Bjarni vera að viðhalda þeim stöðugleika sem hefði skapast í efnahagslífinu. „Um það ætti allt meira eða minna að hverfast,“ sagði fjármálaráðherrann.

Stöðugleikinn væri forsenda öryggis heimila og atvinnulífs, fyrir því að vextir lækkuðu og kostnaður við að eignast eigin húsnæði og reka fyrirtæki kæmi niður. Bjarni sagði að Íslendingar hefðu fest sig í að fara fram úr sér, sem hefði kallað á háa verðbólgu og vexti. Þeim hefði þurft að mæta með miklum launahækkunum, sem hefðu kallað á frekari verðbólgu. Þannig hefðu Íslendingar alltaf verið að elta skottið á sjálfum sér.

Kristján Kristjánsson, stjórnandi þáttarins, spurði Bjarna út í jöfnuð og hvort Sjálfstæðisflokkurinn væri að færa sig frekar út í velferðarmálin en hann hefði áður gert.

Bjarni sagði jöfnuð vera og verða áfram stórt og mikilvægt mál. Hann liti svo á að ef ójöfnuður ykist þannig að horfið yrði frá því jafnvægi sem hefði einkennt íslenskt samfélag rofnaði ákveðinn þjóðfélagssáttmáli. Ójöfnuður gengi ekki upp í eins litlu samfélagi og Íslandi.

Þó væri ekki hægt að jafna kjör allra en Sjálfstæðisflokkurinn legði áherslu á að jafna tækifæri fólks til náms, aðgengis að heilbrigðisþjónustu og lífsskilyrða óháð búsetu á landinu eftir því sem kostur væri á.

Kollvarpi ekki sjávarútvegskerfinu

Þegar kom að sjávarútvegi varaði Bjarni við því að kerfinu yrði breytt þannig að það drægi úr verðmætasköpun. Hann sagðist sammála því að fyrirtækin ættu að greiða sanngjarnt gjald fyrir aðgang að auðlindinni. Stjórnmálaflokkunum hefði ekki tekist vel til við að leiða til lykta umræður um það af yfirvegun.

Sumir stjórnmálaflokkar vildu leysa allan vanda með því að skattleggja sjávarútvegsfyrirtækin nógu rækilega. Margir boðuðu endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar frá grunni og umræðan einkenndist af yfirboðum. Benti Bjarni á að ríkið hefði aldrei fengið meiri arð af sjávarauðlindinni en undanfarin fimm ár. Fólk þyrfti að gæta sín á því að kollvarpa kerfinu með breytingum sem kæmu í veg fyrir að verðmæti yrðu til.

„Ég hef ekki séð útfærslu að breyttu kerfi sem viðheldur verðmætasköpun og skilar þjóðinni meiri arði,“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert