„Það er eðlilegt að við komum saman og ræðum árangur þingstarfa og veltum fyrir okkur helstu baráttumálum. Á þessu kjörtímabili hefur afar mörgu verið komið til leiðar,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, við eldhúsdagsumræður á Alþingi í kvöld.
Hann sagði vel hafa gengið í því að taka til í ríkisfjármálum. „Verðbólga er lægri. Maður finnur fyrir því í aðdraganda kosninga að það er samhljómur um margt. Menn vilja styrkja heilbrigðiskerfið á íslandi,“ sagði Bjarni enn fremur. Vilji sé til að gera betur í almannatryggingamálum þannig að þeir sem eldri eru geti betur komist af. Sama eigi við um öryrkja.
Landamæri séu að opnast og verslun og þjónusta þurfa samkeppnishæft skilyrði. „Með fullu afnámi vörugjalda og tolla höfum við jafnað samkeppnisstöðu verslunar á íslandi þannig að hún er samkeppnishæf við Norðurlönd og kemur neytendum til góða. Þess vegna er verðbólga 1% og það finna allir hvað það skiptir máli að búa við stöðugleika.“
Stjórnmálamenn geti lært ýmislegt. „Kannski fóru stjórnmálamenn í kapphlaup við stéttarfélög um hver gæti fært aðgerðir í lög sem myndu auka kaupmátt. Það gæti verið ástæða erfiðleika kjarasamninga og menn dragi lærdóm af því.“
Ekki bara var vöruverð lækkað sagði Bjarni. Stórum kerfum var líka breytt, t.d. í dómsmálum með millidómsstigi, framhaldsskólastigið. Nemendur koma fyrr inn í háskóla og fyrr út á vinnumarkaðinn sem mun skapa meiri verðmæti og landsframleiðsla mun vaxa. Við verðum síðan betur samkeppnishæf með slíkt menntakerfi.
Vonandi nýtast vikurnar fram undan þinginu til að ljúka stórum málum og í framhaldinu geti farið fram málefnaleg kosningabarátta og við getum saman unnið að framfaramálum fyrir land og þjóð.“