Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, lagði áherslu á réttindi barna og ungmenna, sérstaklega þeirra sem standa höllum fæti, við eldhúsdagsumræður á Alþingi í kvöld.
Að hans mati hefur núverandi ríkisstjórn ekki starfað og forgangsraðað í þágu barna og ungmenna. „Mér finnst samfélagið okkar alls ekki standa sig nógu vel. Mér finnst við sem sitjum hér á Alþingi geta gert miklu betur. Og mér finnst ríkisstjórnin hafa kolfallið á þessu prófi,“ sagði Páll.
Benti Páll á að í janúar kynnti UNICEF Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, skýrslu sína um stöðu barna hér á landi. Niðurstöður hennar sýni að meira en 6000 börn líði efnislegan skort hér á landi. „Er það ásættanlegt í velmegunarsamfélaginu okkar skuli meira en 6000 börn lifa við skort á efnislegum gæðum?“
Páll sagði ennfremur að núverandi ríkisstjórn, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, hefði mjög lítinn áhuga á jöfnuði. „En það er þó miklu verra og gríðarlega mikið áhyggjuefni fyrir fólkið í þessu landi og alveg sérstaklega börn og ungmenni sem eiga að erfa landið að þessi ríkisstjórn hefur einnig mjög lítinn áhuga á jöfnum tækifærum fólks. Verk hennar sýna það og sanna svo ekki verður um villst.“
Ríkisstjórnin hefði forgangsraðað í þágu annarra hópa og hagsmuna en barna og ungmenna. Heldur hefði verið forgangsraðað í þágu skammtímamarkmiða og í þágu sérhagsmuna. „Við þurfum nýja ríkisstjórn í þessu landi sem tekur mannréttindi og skyldur sínar til að tryggja fólki jöfn tækifæri mjög alvarlega og tryggir að allir þegnar þjóðarinnar fá notið arðs af auðlindum sínum, ekki bara fáeinir útvaldir,“ sagði Páll.