Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, virðist njóta stuðnings meirihluta framsóknarmanna, en Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra, nýtur meiri vinsælda hjá öðrum kjósendum. Þetta kemur fram í tveimur könnunum sem birtar eru í fjölmiðlum í dag.
Gallup gerði könnun fyrir Viðskiptablaðið dagana 21. til 28. september þar sem spurt var hvern menn teldu best til þess fallinn að vera næsta formann Framsóknarflokksins og stuðningsmenn Sigðurðar Inga fengu, að því er fram kemur í Fréttablaðinu, Gallup til að gera könnun þar sem spurt var með hvorn formanninn fólk væri líklegra til að kjósa Framsóknarflokkinn. Var sú könnun gerð dagana 15. til 26. september.
Könnun Viðskiptablaðsins bendir til þess að Sigmundur Davíð njóti stuðnings 52% kjósenda Framsóknarflokksins í formannsembættið, en Sigurður Ingi 37%. 11% nefndu síðan Lilju Dögg Alfreðsdóttur.
Könnun stuðningsmanna Sigurðar Inga sýnir öllu minni mun á milli formannsframbjóðendanna, en samkvæmt henni nýtur Sigmundur Davíð stuðnings 49% Framsóknarmanna en Sigurður Ingi 45%.
Báðar kannanir sýna Sigurð Inga njóta meiri vinsælda þegar kjósendur allra flokka voru spurðir. Þannig sýnir könnun stuðningsmannanna að rúm 40% væru líklegri til að kjósa Framsóknarflokkinn í komandi alþingiskosningum með Sigurð Inga í formannsætinu, en aðeins 8,6% töldu líklegt að þeir kysu flokkinn væri Sigmundur Davíð formaður. Í könnun Viðskiptablaðsins töldu 47% þeirra sem svöruðu Sigurð Inga betur til þess fallinn að vera næsta formann Framsóknarflokksins, en 12% nefndu Sigmund Davíð. Þá nefndu 25% Lilju Alfreðsdóttur.