„Þegar rætt var um það að ræða dagskrá þessa flokksþings, þá stóð formaðurinn upp, sagði „þessum fundi er slitið,“ og gekk út. Eygló Harðardóttir ritari gekk á eftir honum og sagði „við hljótum að geta komið okkur saman um hvernig dagskráin á að vera.“ Þetta segir Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins þegar hann lýsir atburðarásinni þegar ræða átti dagskrá flokksþings í framkvæmdastjórn.
„Þá voru nokkur vel varin orð látin falla og hurðum skellt,“segir Ásmundur. Hann segir að eftir fundinn hafi það ekki verið orðin sáttavilji og auðmýkt sem komu upp í hugann, heldur frekar eitthvað á borð við einræði og hroka.
Ásmundur sparaði ekki stóru orðin í garð Sigmundar og vinnubragða hans í ræðunni sem hann flutti á flokksþinginu í dag og lýsti yfir óánægju sinni með vinnubrögð formannsins.
„Ég vil rekja þetta hérna því allir hafa talað um sáttavilja og auðmýkt. Á þessum fundi gerðist eitthvað sem ég hef aldrei lent í áður. Ég hef aldrei lent í því af manni sem stýrir þeim fundi að vera spurður að því áður en ég bið um orðið hvað ég ætla að segja og ég fái ekki orðið nema ég tali um ákveðna hluti,“ sagði Ásmundur meðal annars.
Þá segir Ásmundur það vera sér kært að geta staðfest það að þingflokkurinn vissi ekki af ferð Sigmundar Davíðs á Bessastaði.