Klippt á útsendinguna eftir Sigmund

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra á fundinum í dag. Ræða hans …
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra á fundinum í dag. Ræða hans fór ekki í loftið heldur var klippt á útsendinguna eftir ræðu Sigmundar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Klippt var á útsendingu frá flokksþingi Framsóknarflokksins eftir ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins. Eftir Sigmundi hélt Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og frambjóðandi til formanns á þinginu, yfirlitsræðu sína og hafði verið kynnt í pósti frá flokknum að sýnt yrði frá ræðum þeirra beggja og annarra ráðherra.

Streymið var meðal annars aðgengilegt á vef mbl.is, en í pósti sem Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar, sendi fjölmiðlum í dag kom fram að streymt yrði „frá ræðum formanns og ráðherra á flokksþingi Framsóknarflokksins í dag.“ 

Mikil spenna er í loftinu vegna formannskosninganna og mátti greina það í ræðum Sigmundar og Sigurðar í dag.

Uppfært kl 14:51: Jóhannes Þór segir í samtali við mbl.is að hann viti ekki ástæðurnar fyrir því að klippt hafi verið á útsendinguna. Segir hann það mjög slæmt þar sem senda hafi átt út ræður formanns og allra ráðherra. „Það var tilgangurinn með þessu, að flokksmenn gætu fylgst með ræðunum.“ Hann ætlaði að láta athuga með hvað hefði gerst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka