Samkvæmt upplýsingum frá Háskólabíói voru ekki neinir hnökrar á tæknilegum málum við beina útsendingu af flokksþingi Framsóknarflokksins í gær. Farið var í einu og öllu að fyrirmælum forsvarsmanna flokksþingsins. Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV.
Beinni vefútsendingu af flokksþingi Framsóknarflokksins lauk um leið og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, lauk ræðu sinni og var ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar, varaformanns og forsætisráðherra, ekki sýnd.
„Mér sýnist þetta hafa verið einhvers konar samskiptamistök hér innanúss.Það eru allir jafnsúrir og svekktir yfir því. Þetta átti að sjálfsögðu að vera hinsegin eins og var búið að benda fjölmiðlum á um morguninn. Það átti að senda út allar ræðurnar en það komst ekki til skila á rétta staði og því fór sem fór," segir Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, í samtali við mbl.is.