Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir það góða tilfinningu að vera orðinn formaður Framsóknarflokksins.
„Þetta er öflugur flokkur. Við göngum glaðbeitt til kosninga með sterkan málefnagrunn á bakinu. Ég tek auðvitað við þessu embætti við sérstakar aðstæður. Ég er bæði fullur þakklætis og auðmýktar fyrir embættinu,“ segir Sigurður.
„Ég er þakklátur flokksmönnum sem koma hérna saman og klára þetta með lýðræðislegum hætti. Síðan er verk að vinna að sameina flokkinn, sem ég mun leggja mig fram við að gera,“ sagði hann.
„Þetta eru vissulega búnir að vera erfiðir tímar en stærsta kosningin er 29. október og þangað ætlum við að stefna glaðbeitt.“
Hann bætti við um kjörið: „Maður á aldrei að ganga sigurviss til kosninga um nokkurn skapaðan hlut en auðvitað hafði ég þá tilfinningu að ég ætti víðtækan stuðning. Auðvitað er ég þakklátur fyrir að það hafi gengið eftir.“