„34. flokksþingi Framsóknarflokksins er slitið,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins. Sigurður Ingi ávarpaði framsóknarmenn þegar hann sleit þinginu þar sem hann óskaði einnig nýjum varaformanni og ritara til hamingju með kjörið og vonar hann að ný forysta muni starfa vel saman.
Þá þakkaði Sigurður Ingi flokksfélögum sínum fyrir þingið, þingforsetum, kjörstjórn, starfsfólki skrifstofu flokksins, sjálfboðaliðum og öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við vinnu flokksþingsins.
„Við höfðum áhyggjur að því að málefnavinnan yrði ekki nægilega öflug vegna þeirra kosninga sem fram fóru í dag,“ sagði Sigurður Ingi meðal annars en hann kvaðst ánægður með hvernig til hefði tekist.
„Nú munum við snúa bökum saman og taka höndum saman,“ sagði Sigurður Ingi sem segir flokkinn standa vel málefnalega og að hann muni ganga einbeittur til þeirra kosninga sem framundan eru. „Það er verkefni að vinna en við erum tilbúin til þess.“