Tekjuhærri leggi meira til samfélagsins

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er hugur í fólki og mikil gleði,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna í samtali við mbl.is. Flokksráðsfundur Vinstri grænna fór fram á Akureyri um helgina en þar voru samþykktar áherslur flokksins í öllum málaflokkum fyrir komandi kosningar.

Frétt mbl.is: Óvinsæl ríkisstjórn í miðju góðæri

Heilbrigðiskerfið, húsnæðismál, málefni öryrkja og eldri borgara og skóla- og menntamál voru meðal annars ofarlega á baugi á flokksráðsfundinum og segir Katrín mjög skýra kröfu að gera þurfi betur hvað varðar þessa málaflokka.

Frétt mbl.is: Kosningaáherslur Vinstri grænna kynntar

Afnema greiðsluþátttöku sjúklinga í áföngum

Hvað húsnæðismálin varðar segir Katrín flokkinn vera með tillögur um að auka þurfi stofnframlög í þeim málaflokki í takt við nýtt lagaumhverfi. „Við viljum líka að sveitarfélög fái heimildir til þess að koma á einhvers konar takmörkunum á hækkunum leiguverðs eins og þekkist víða í nágrannalöndunum,“ segir Katrín en sérstaklega sé horft til stöðu unga fólksins á húsnæðismarkaði.

Þá segir hún umræður um heilbrigðismál vissulega hafa verið fyrirferðarmiklar á fundinum. „Við viljum byrja annars vegar á heilsugæslunni og hins vegar á göngudeildum sjúkrahúsanna, það sé fyrsti áfangi í að taka burt gjaldtöku og draga svo jafnt og þétt úr kostnaðarþátttöku sjúklinga á kjörtímabilinu,“ segir Katrín en börnum og eldri borgurum verði forgangsraðað hvað það varðar.

Þeir efnameiri leggi aukalega til samfélagsins

Spurð um stefnu flokksins hvað varðar fjármögnun þessara verkefna segir Katrín flokkinn vera með tillögu um hvernig hægt sé að auka heimtur af auðlindum. „Það er til dæmis hægt að gera bara með sérstökum auðlindagjöldum. Við leggjum til að við tökum aftur upp auðlegðarskatt, endurskoðaðan með talsvert hærra frítekjumarki en var,“ segir Katrín.

Þá verði horft til þess að eignamesta og tekjuhæsta fólkið leggi aukalega til samfélagsins og aukin áhersla verði á skattaeftirlit til að uppræta skattaundanskot. „Ef það skilaði sér allt þá þyrfti ekki neina nýja skatta,“ útskýrir Katrín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert