„Þingdólgar!“

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að forystumenn stjórnarflokkanna séu „dólgar“ sem virði ekki löggjafarþingið. Stjórnarandstaðan gagnrýndi það harðlega að efnt væri til þingfundar án þess að stjórnarflokkarnir væru búnir að ákveða hvaða mál þeir vilji fá afgreidd fyrir þinglok.

„Mér finnst óhjákvæmilegt að gera athugasemdir við það að forseti efni til þingfundar við þessar aðstæður. Í lok síðasta kjörtímabils háttaði til með mjög svipuðum hætti og nú. Þáverandi stjórnarflokkar voru ekki búnir að gera það upp við sig hvaða mál þeir vildu fá afgreidd. Þáverandi þingforseti, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, boðaði bara ekkert til þingfunda fyrr en að ljóst var af hálfu stjórnarflokkanna hvað þeir vildu fá afgreitt. Það er hinn eðlilegi framgangsmáti forseta sem vill standa í lappirnar gagnvart framkvæmdavaldinu og verja löggjafaþingið,“ sagði Árni Páll sem gerði athugasemdir undir liðnum fundarstjórn forseta.

Gerði athugasemd við orðalag Árna Páls

„Og ég hlýt að kalla eftir því að hæstvirtur forseti ljúki sínum þingferli með því að setja þessum dólgum, forystumönnum stjórnarflokkanna, sem að ekki koma hér fram með eðlilegan...,“ sagði Árni Páll en þá sló Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, í bjöllu sína og gerði athugasemd við orðalag Árna. 

„Virðulegur forseti, það er ekki hægt að kalla menn neitt annað sem ekki virða löggjafarþingið samtals. Menn sem eru búnir að lofa samtali og efna það ekki vikum saman. Það er ekki hægt að nota neitt annað en orð sem íslensk tunga á yfir slíka menn,“ sagði Árni Páll.

Þá heyrðist kallað úr þingsal: „Þingdólgar!“

Óundirbúinn fyrirspurnartími er á dagskrá þingsins í dag og átti hann að hefjast klukkan 10:30. Hins vegar tafðist sá liður um 45 mínútur vegna athugasemda stjórnarandstæðinga sem voru ósáttir við skipulag, eða öllu heldur skipulagsleysi, í tengslum við þingstörfin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert