Viðsnúningur í rekstri VG

Afgangur var af rekstri Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs árið 2015 en hann nam tæpum 23 milljónum króna. þetta kemur fram í ársreikningi flokksins fyrir árið 2015 sem hefur verið skilað inn til Ríkisendurskoðunar. 

„Rekstur flokksins hefur snúist til betri vegar á síðustu árum, en eftir alþingiskosningarnar 2013 glímdi hreyfingin við þungan fjárhag og talsverðar skuldir.  Í framhaldi af því var skorið niður í rekstri, starfsmannahaldi, eignir seldar og mikið aðhald var á útgjöldum allt kjörtímabilið. Árið 2015 nam afgangur af rekstri VG tæpum 23 milljónum, eða 22.857.725,“ segir í tilkynningu frá VG.

„Tekjur VG námu samtals 54 milljónum, þar af voru framlög Alþingis rúmlega fjörutíu milljónir, framlög einstaklinga tæpar 9 milljónir og framlög sveitarfélaga tæpar 3,5 milljónir.  Rekstargjöld hreyfingarinnar námu tæplega 31 milljón,“ segir enn fremur.

Þá segir, að VG leigi í dag skrifstofu undir miðlæga starfsemi sína í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum á Túngötu 14 í Reykjavík. Einn fastur starfsmaður starfar á vegum hreyfingarinnar, auk nokkurra sem ráðnir eru tímabundið vegna alþingiskosninganna 29. október 2016.

Nánar á heimasíðu VG.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert