„Þetta er bara stjórnleysi“

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þeir eru búnir með sinn tíma og við erum komin fram yfir starfsáætlun. Þetta er fullkomlega óraunhæft,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is um þá stöðu sem nú er á Alþingi. Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, greindi þingmönnum í dag frá 16 málum sem ríkisstjórnin vill setja á dagskrá fyrir þinglok telur Birgitta þau jafnvel vera fleiri.

Frétt mbl.is: Segir óvissu ríkja á Alþingi

Þingfundi var slitið klukkan 18 í dag eftir að hafa verið frestað ítrekað en næsti þingfundur hefur verið boðaður klukkan 10:30 í fyrramálið. „Hann hefur verið boðaður en það er ekkert víst að hann verði, það verður bara að koma í ljós. Það er alfarið á ríkisstjórninni,“ útskýrir Birgitta.

Hún segir þingið vera statt í einhverju millibilsástandi og bíði eftir að ríkisstjórnin komi með einhverja tillögu að starfsáætlun og telur hún ótækt að fulltrúar ríkisstjórnarinnar haldi áfram uppteknum hætti en engar niðurstöður fengust í samtali ríkisstjórnarinnar með stjórnarandstöðu í morgun.

Ríkisstjórnin taki málið ekki alvarlega

„Við erum bara að bíða eftir að þeir hafi samband, þess var krafist á fundinum í dag að þessum samningum yrði lokið í dag en það hefur ekkert heyrst í þeim,“ segir Birgitta sem segir ljóst að ríkisstjórnin sé ekki að vinna vinnuna sína.

Segir hún það ekki geta verið ábyrgð stjórnarandstöðunnar að vandamál í stjórnarflokkunum, bæði á milli þeirra og innan geri það að verkum að þingstörf dragist út úr öllu hófi.

„Það sem að er bara fáránlegt er að þeim virðist ekki vera nein alvara með neitt og ef að þeir hafa einhvern áhuga á að ljúka þessu á sómasamlegan hátt þá myndu þeir sýna að þeir tækju þetta alvarlega. Þetta er bara stjórnleysi,“ segir Birgitta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka