Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurður Ingi Jóhannsson hafa ekki rætt saman eftir að sá síðarnefndi bar sigur úr býtum í formannskosningum Framsóknarflokksins á sunnudag. Í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun sagði hann Sigurð Inga ekki hafa svarað sér fyrir kosningarnar, þrátt fyrir tilraunir af sinni hálfu.
Aðspurður játti hann því að enn væri kalt á milli þeirra tveggja. Þá viðurkenndi hann að kosningarnar hefðu verið honum áfall.
„Þetta leit ágætlega út þarna á laugardeginum. Svo allt í einu, þegar kominn var sunnudagur og klukkan orðin ellefu, þá komu rúturnar og út úr þeim streymdi fjöldi fólks sem ég hef hreinlega aldrei séð áður, í störfum mínum í flokknum.“
Þá sagði hann furðumörgu fólki hafa verið vísað frá og það ekki fengið að kjósa.
„Það eru mjög margir búnir að hafa samband við mig og sagt að þeir hafi ætlað að styðja mig í kosningunum, og þeim leyft að innrita sig á flokksþingið, en svo ekki leyft að kjósa.“
Sigmundur sagði að hann hefði ef til vill verið værukær fyrir flokksþingið, enda hefði hann lengi vel ekki búist við formannsslag á þinginu. Tilkynnt hefði verið um framboð Sigurðar Inga til formanns aðeins tveimur klukkustundum eftir að skráningarfrestur á þingið var runninn út.
Aðspurður sagði hann ekki hafa hvarflað að sér að ganga úr flokknum og stofna nýjan.
„Það var ekki valkostur fyrir mig að yfirgefa fólkið í mínu kjördæmi, sem er nýbúið að kjósa mig til forystu með afgerandi meirihluta.“
Sigmundur Davíð sagðist einmitt staddur á Egilsstöðum, og að þar væri hann ásamt Lilju Dögg Alfreðsdóttur nýkjörnum varaformanni Framsóknarflokksins.