Vill endurskoða EES og Schengen

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, á flokksþingi framsóknarmanna.
Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, á flokksþingi framsóknarmanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framsóknarflokkurinn telur tímabært að leggja mat á árangurinn af aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og Schengen-samstarfinu og velta upp öðrum möguleikum í þeim efnum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun flokksþings framsóknarmanna um utanríkismál sem fram fór á dögunum.

Fram kemur í ályktuninni að EES-samningurinn hafi tryggt aðgang að sameiginlegum markaði Evrópusambandsins og verið grunnur að samstarfi Íslands og sambandsins. „Íslendingar skulu áfram leita eftir samstarfi við þjóðir innan og utan Evrópusambandsins á grundvelli frjálsra og sanngjarnra samninga og samvinnu sem byggir á jöfnuði og ábata allra aðila. Með slíkum samskiptum geta íslensk stjórnvöld best tryggt langtíma hagsmuni Íslands.“

Hins vegar sé rétt að meta árangurinn af EES-samningnum og Schengen-samstarfinu í ljósi grundvallarbreytinga sem orðið hafi á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins, meðal annars vegna fyrirhugaðrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, og vandamála tengdum Schengen-samstarfinu og velta upp valkostum. Framsóknarflokkurinn leggur sem fyrr áherslu á að hann telji hagsmunum Íslands best borgið utan sambandsins.

Er því fagnað að umsóknarferlinu að Evrópusambandinu hafi verið hætt endan hafi forsendur umsóknarinnar að sambandinu verið brostnar. Þá leggur Framsóknarflokkurinn áherslu á að hagsmuna Íslands verði gætt í hvívetna vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

„Bretland er stærsta viðskiptaland Íslands, bæði hvað varðar vöru- og þjónustuviðskipti. Ísland skal hafa frumkvæði að viðræðum við stjórnvöld í Bretlandi þar sem markmiðið er að tryggja a.m.k. jafn góð viðskiptakjör milli þjóðanna og nú eru í gildi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert