Undir öllum venjulegum kringumstæðum hefur forseti ekki mikil áhrif á stjórnarmyndun eftir kosningar enda eru það formenn stjórnmálaflokkanna sem mynda stjórn en ekki hann. Aðeins reynir á forsetann ef viðræður flokkanna gerast erfiðar, að sögn Guðmundar Hálfdanarsonar, prófessors í sagnfræði og forseta hugvísindasviðs Háskóla Íslands.
Skoðanakannanir benda til þess að ekki verið hægt að mynda tveggja flokka ríkisstjórn eftir alþingiskosningarnar 29. október. Nýjasta könnunin bendir jafnframt til þess að allt að sjö flokkar nái fólki inn á þing.
Í ljósi þessa flókna pólitíska landslags hefur verið rætt um að Guðna Th. Jóhannessonar forseta bíða óöfundsvert verkefni við stjórnarmyndun þegar talið hefur verið upp úr kjörkössunum. Guðmundur segir hins vegar að raunverulega hafi forseti ekki mikið hlutverk við stjórnarmyndun.
„Það er ekki forseti sem myndar stjórn, það eru auðvitað formenn flokkanna sem gera það. Undir öllum venjulegum kringumstæðum hefur hann ekki áhrif því stjórnin verður að hafa meirihluta. Ef meirihluti myndast er það ekki vegna þess að forsetinn hefur afhent einhverjum stjórnarmyndunarumboð heldur vegna þess að sá sem hafði umboðið gat myndað meirihluta,“ segir hann.
Forsetinn hefur þó það hlutverk að hann afhendir stjórnarmyndunarumboð og bendir á þann sem reynir fyrstur að mynda ríkisstjórn. Ekki eru hins vegar neinar fastmótaðar reglur um hverjum skuli afhenda þetta umboð.
„Það er engin stjórnarskrárbundin regla um það hver fær þetta umboð. Forsetinn ræður því algerlega sjálfur. Það er alveg algerlega á hans valdi að velja það,“ segir Guðmundur.
Sem dæmi nefnir hann þingkosningarnar 2013 en eftir þær afhenti Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins stjórnarmyndunarumboðið þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkur Bjarna Benediktssonar hafi fengið flest atkvæði.
„Við síðustu stjórnarmyndun var það ekki formaður stærsta stjórnmálaflokksins sem fékk stjórnarmyndunarumboðið heldur formaður þess flokks sem hafði unnið stærsta sigurinn í kosningunum. Það var athyglisvert,“ segir Guðmundur.
Þó að engin föst regla sé um að hver eigi að fá stjórnarmyndunarumboð er reyndin sú að forseti heyrir yfirleitt hljóðið í formönnum flokkanna sem eru þá gjarnan aðeins búnir að ræða saman og getur metið hverjir eru líklegir til að geta myndað stjórn.
„Stundum liggur þetta alveg ljóst fyrir hverjir ætla að mynda stjórn og stundum ekki. Í þessu tilviki verður það sjálfsagt ekki því það bendir allt til þess að það séu jafnvel engir tveir flokkar sem geta myndað stjórn. Ef þeir verða tveir þá verði það örugglega ekki aðrir en Sjálfstæðisflokkur og Píratar og það er mjög ólíklegt að þeir fari í stjórn saman, þó að það gæti auðvitað gerst,“ segir Guðmundur.
Miðað við skoðanakannanir gætu úrslit kosninganna í þessum mánuði orðið þau að Sjálfstæðisflokkurinn verði stærstur en Píratar vinni mikinn sigur og verði næststærsti flokkurinn á þingi. Guðmundur segir það geta farið eftir því hversu mikill munur verði á flokkunum hvort að nýr forseti feti í fótspor forvera síns og afhendi sigurvegara kosninganna frekar en stærsta flokknum stjórnarmyndunarumboð.
Verði munurinn á milli stærstu flokkanna lítill og gengið sé út frá þeirri reglu að sá sem vinnur stærsta sigurinn eigi á einhvern hátt rétt á að reyna fyrstur stjórnarmyndun þá ættu Píratar örugglega þann rétt.
Verði munurinn hins vegar meiri, 5% eða þaðan af meira, segir Guðmundur að erfitt yrði fyrir forseta að ganga fram hjá stærsta flokknum.
„Ef að munurinn er lítill og Píratar gefa í skyn að þeir geti myndað stjórn þá kæmi það auðvitað mjög sterklega til greina,“ segir hann.
Forsetinn verður fyrst mikilvægur ef flokkunum tekst ekki að mynda stjórn og það segir Guðmundur að geti vel gerst. Þá geti forseti þurft að skipa svonefnda utanþingsstjórn en það hefur ekki gerst á lýðveldistímanum.
Næst fór það árið 1980 þegar Gunnar Thoroddsen klauf Sjálfstæðisflokkinn og myndaði ásamt nokkrum þingmönnum flokksins ríkisstjórn með Alþýðubandalagi og Framsóknarflokki eftir að afar illa hafði gengið að klambra saman stjórn. Þá stóð Kristján Eldjárn forseti frammi fyrir þeim möguleika að þurfa að taka af skarið og mynda utanþingsstjórn.
„Þetta er eitt af þeim fáu skiptum sem forseti er svona mikilvægur í þessum stjórnarmyndunarviðræðum. Það hafði meira að gera með hversu erfiðar viðræðurnar voru og hversu illa þær gengu. Hann var virkilega að íhuga að mynda utanþingsstjórn þegar þessi [stjórnarmyndunar]möguleiki kom upp,“ segir Guðmundur.
Aðeins einu sinni hefur það gerst í sögunni að utanþingsstjórn hefur verið skipuð á Íslandi en það var árið 1942.
„Það er eitthvað sem þingmenn vilja forðast í lengstu lög og væri örugglega erfitt að starfa,“ segir Guðmundur.
Afar sennilegt er að mynda þurfi þriggja eða jafnvel fjögurra flokka stjórn í haust og þá segir Guðmundur að samsetning ríkisstjórnar sé auðvitað óljósari. Jafnvel þó að tveir flokkar séu ákveðnir í að vinna saman þurfi þeir fleiri með sér. Þá geti stjórnarmyndunarviðræður orðið erfiðar.
„Því fleiri sem eru í þessum pakka því flóknari verða þær viðræður og þá byrja auðvitað alls konar hrossakaup en forsetinn hefur auðvitað ekkert með það að gera heldur formenn flokkanna,“ segir hann.
Það er aðeins ef viðræðurnar verða erfiðar sem virkilega reynir á forsetann sem þarf þá að fara að stýra viðræðunum, að sögn Guðmundar.
Auðveldlega hafi gengið að mynda ríkisstjórnir síðustu áratugi, allt frá árinu 1991, því stjórnarmynstur hafi verið tiltölulega augljóst á þessu tímabili.
„Það verður ólíklegt að það gerist núna og þá hverfum við aftur til þessa tíma sem var á 9. áratugnum þegar stjórnarmyndunarviðræður voru yfirleitt mjög erfiðar og stjórnir frekar óstöðugar,“ segir Guðmundur og vísar til þeirra reynslu að margra flokka stjórnir séu óstöðugri en tveggja flokka stjórnir.