„Þetta er athyglisverð nýjung. Það er mjög óvenjulegt að menn leggi til eins konar kosningabandalag fyrir kosningar,“ segir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, um boð Pírata til stjórnarmyndunarviðræðna.
Frétt mbl.is: Píratar útiloka stjórnmálaflokkana
„Við eigum náttúrulega eftir að sjá hvort þessar viðræður verða og hvað kemur út úr þeim. Það er augljóst að þó að snertifletir séu margir á milli flokka, hefur manni sýnst stefnan vera býsna ólík. Þetta er áhugaverð tilraun, skulum við segja, sem þau leggja þarna til.“
Spurður hvort honum hugnist boð Pírata segir Benedikt að eðlilegt væri að athuga fyrst vilja kjósenda, áður en gengið sé til viðræðna.
„Við í Viðreisn erum alltaf opin fyrir að eiga samstarf við flokka sem vilja ná samstöðu um frjálslynda stefnu og kerfisbreytingar, og okkur finnst rétt að þjóðin fái að kjósa um skýra valkosti í þessum kosningum. Þar munum við bera fram okkar stefnu og okkur finnst það eðlilegt að kjósendur kveði upp sinn dóm fyrst,“ segir Benedikt.
„Eftir það erum við tilbúin í viðræður við alla þá, sem vilja sameinast um þessar róttæku kerfisbreytingar, sem við teljum að verði mjög til batnaðar í samfélaginu.
En ég tel það augljóst að breytingarnar sem við erum að boða ná ekki fram að ganga nema við mætum til stjórnarmyndunarviðræðna með sterkt umboð frá kjósendum.“
Benedikt segir það mikilvægt að áherslur kjósenda verði gerðar ljósar áður en flokkar geri málamiðlanir í viðræðum sín á milli.
„Ég reikna með því að flokkarnir verði að gera töluverðar málamiðlanir í svona stjórnarmyndunarviðræðum og mér finnst eðlilegt að kjósendur fái að segja sínar skoðanir á ómengaðri stefnu fyrir fram.“
Aðspurður segir hann Viðreisn ekki vilja útiloka samstarf við neinn flokk.
„En við höfum nú talið að Þjóðfylkingin sé nú svona býsna fjarri okkur og við höfum því útilokað hana. En hún er kannski ólíklegur kostur á þingi líka.“
Að lokum segir Benedikt að í raun séu tveir Framsóknarflokkar í ríkisstjórn, sem séu orðnir ansi líkir hvor öðrum.
„Ég held það sé mjög mikilvægt að kjósendur hafi alvöru val um frjálslyndan stjórnmálaflokk. Og þar er Viðreisn augljós kostur.“