„Dálítið langt gengið“

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég er persónulega ekki viss um að ég hafi umboð til að mynda ríkisstjórn fyrir kosningar á meðan almenningur er ekki búinn að kjósa og veita umboðið. Mér finnst það dálítið langt gengið en samtal er alltaf gott,“ sagði Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, í samtali við mbl.is um stjórnarviðræðuboð Pírata. 

Pírat­ar boðuðu í dag til blaðamanna­fund­ar þar sem for­svars­menn til­kynntu að ekki væri vilji fyr­ir stjórn­ar­sam­starfi með nú­ver­andi stjórn­ar­flokk­um og að Pírat­ar hafi sent bréf til fjög­urra flokka um mögu­leg­ar stjórn­ar­viðræður eft­ir kosn­ing­ar, Bjart­rar framtíðar, VG, Viðreisn­ar og Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

frétt mbl.is: Píratar útiloka stjórnarflokkana

Að sögn Óttars hefur ekki verið rætt innan Bjartrar framtíðar hvernig skuli svara bréfinu sem barst um hádegisbilið í dag. Þá tekur hann ekki í sama streng og Píratar varðandi útilokun á samstarfi við stjórnarflokkana. 

„Við höfum ekki myndað okkur fyrirframákveðna stefnu um um samstarf við aðra flokka nema að við útilokum samstarf með Íslensku þjóðfylkingunni.“

Í bréfinu segir að Píratar séu til­bún­ir til að hefja form­leg­ar viðræður um sam­starf við aðra flokka út frá fimm meg­ináhersl­um Pírata til þess að geta lagt drög að stjórn­arsátt­mála fyrir kosningar. Óttarr telur að grundvöllurinn fyrir slíku fyrirkomulagi sé óljós, sérstaklega í ljósi pólitískra aðstæðna. 

„Þetta eru sérstakir tímar þar sem miklar breytingar eru á gömlum flokkum sem nýjum og margt er óljóst um stefnur og áherslur flokka í grundvallarmálum eins og auðlindamálum, sjávarútvegsmálum, skattamálum o.s.frv. þannig að það er óljós grundvöllur til að taka ákvarðanir fyrir kosningar.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert