„Ég er persónulega ekki viss um að ég hafi umboð til að mynda ríkisstjórn fyrir kosningar á meðan almenningur er ekki búinn að kjósa og veita umboðið. Mér finnst það dálítið langt gengið en samtal er alltaf gott,“ sagði Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, í samtali við mbl.is um stjórnarviðræðuboð Pírata.
Píratar boðuðu í dag til blaðamannafundar þar sem forsvarsmenn tilkynntu að ekki væri vilji fyrir stjórnarsamstarfi með núverandi stjórnarflokkum og að Píratar hafi sent bréf til fjögurra flokka um mögulegar stjórnarviðræður eftir kosningar, Bjartrar framtíðar, VG, Viðreisnar og Samfylkingarinnar.
frétt mbl.is: Píratar útiloka stjórnarflokkana
Að sögn Óttars hefur ekki verið rætt innan Bjartrar framtíðar hvernig skuli svara bréfinu sem barst um hádegisbilið í dag. Þá tekur hann ekki í sama streng og Píratar varðandi útilokun á samstarfi við stjórnarflokkana.
„Við höfum ekki myndað okkur fyrirframákveðna stefnu um um samstarf við aðra flokka nema að við útilokum samstarf með Íslensku þjóðfylkingunni.“
Í bréfinu segir að Píratar séu tilbúnir til að hefja formlegar viðræður um samstarf við aðra flokka út frá fimm megináherslum Pírata til þess að geta lagt drög að stjórnarsáttmála fyrir kosningar. Óttarr telur að grundvöllurinn fyrir slíku fyrirkomulagi sé óljós, sérstaklega í ljósi pólitískra aðstæðna.
„Þetta eru sérstakir tímar þar sem miklar breytingar eru á gömlum flokkum sem nýjum og margt er óljóst um stefnur og áherslur flokka í grundvallarmálum eins og auðlindamálum, sjávarútvegsmálum, skattamálum o.s.frv. þannig að það er óljós grundvöllur til að taka ákvarðanir fyrir kosningar.“