Íslenska þjóðfylkingin ætlar að leggja fram kæru til lögreglu vegna þjófnaðar á meðmælendalistum sem eru í eigu flokksins. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Íslensku þjóðfylkingarinnar. Þar segir að unnist hafi stórsigur í gær þegar framboð Íslensku þjóðfylkingarinnar var samþykkt í Suðurkjördæmi og Norðvesturkjördæmi.
„Skemmdarverkafólkið sem reyndi að koma í veg fyrir að flokkurinn gæti boðið fram gekk ekki eftir.
Nýleg kosningalög gera það að verkum að fólk í öðrum kjördæmum getur kosið flokkinn utankjörstaðar án þess að færa lögheimili sitt en látið atkvæðið renna til flokksins í þessum kjördæmum. Við munum setja nánari leiðbeiningar um það á vefinn.
Við erum líka að senda inn kæru til Landskjörstjórnar í kvöld út af þeim skemmdarverkum sem fjórmenningarnir unnu á framboðum í öllum kjördæmum og munum jafnframt leggja fram kæru til lögreglu eftir helgi vegna stuldar á meðmælalistum sem eru í eigu flokksins og hefðu getað gert það að verkum að við næðum í gegn í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi,“ segir á Facebook-síðu Íslensku þjóðfylkingarinnar.