Til í samstarf á grunni félagshyggju

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, og Lilja Alfreðsdóttir, …
Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, og Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður flokksins, á fundinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Framsóknarflokkurinn er reiðubúinn til þess að starfa með öllum þeim stjórnmálaflokkum að loknum kosningum sem láta sig félagshyggju og jöfnuð varða og eru tilbúnir til þess að varðveita nauðsynlegan stöðugleika í íslensku atvinnu- og efnahagslífi.

Þetta segir í fréttatilkynningu frá Framsóknarflokknum en forystumenn flokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson formaður og Lilja Alfreðsdóttir varaformaður, boðuðu til blaðamannafundar í dag þar sem kosningaáherslur hans voru kynntar. Þar segir enn fremur að Framsóknarflokkurinn hafi sett fram mjög ákveðnar hugmyndir fyrir síðustu kosningar til þess að bæta íslenskt samfélag. Þær hugmyndir hafi gengið eftir með aðstoð færustu sérfræðinga sem völ hafi verið á.

„Nú stöndum við aftur á tímamótum. Búið er að styrkja grunnstoðir atvinnulífs og heimila. Framtíðin er björt ef rétt verður á málum haldið. Framsóknarflokkurinn hefur staðið fyrir róttækum aðgerðum til hagsbóta fyrir fólkið í landinu. Flokkurinn hyggst halda áfram á sömu leið og byggja á þeim árangri sem náðst hefur á kjörtímabilinu. Þar skiptir stöðugleiki og festa í ríkisfjármálum mestu máli,“ segir enn fremur.

Fyrir kosningarnar 2016 leggur Framsóknarflokkurinn m.a. áherslu á eftirfarandi mál:

  • Hagur millistéttarinnar verði bættur enn frekar; neðra skattþrep verði lækkað verulega og persónuafsláttur verði útgreiðanlegur
  • Peningastefnuna skal endurskoða, raunvextir á Íslandi þurfa að endurspegla breyttan efnahagslegan veruleika
  • Lágmarkslífeyrir aldraðra verði 300 þúsund krónur á mánuði og fylgi lágmarkslaunum á almennum vinnumarkaði
  • Byggður verði nýr Landspítali á nýjum stað og framlög til heilbrigðisstofnana um allt land aukin
  • Tannlækningar aldraðra verði gjaldfrjálsar og hjúkrunarrýmum fjölgað um allt land
  • Taka skal upp komugjald á ferðamenn sem nýtt verður til innviða
  • Fæðingarorlof verði 12 mánuðir og greiðsluþak hækkað í 600 þúsund krónur, barnabætur hækkaðar og barnaföt verði án virðisaukaskatts
  • Hluta námslána verði breytt í styrk og sérstök áhersla lögð á að styrkja iðn- og verknám
  • Skoðað verði hvort beita megi skattaívilnunum til fyrirtækja og einstaklinga á efnahagslega veikum svæðum á landsbyggðinni
  • Unnið skal eftir sóknaráætlun í loftslagsmálum sem er að fullu fjármögnuð til næstu þriggja ára í samræmi við skuldbindingar Íslands í Parísarsamkomulaginu
  • Aðstoða ungt fólk með úrræðinu Fyrsta fasteign og öðrum aðgerðum í húsnæðismálum – leiguíbúðir og fjölgun námsmannaíbúða
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert