„Þeir ætla að vera aðal“

Smári McCart­hy og Birgitta Jóns­dótt­ir á blaðamannafundi Pírata í gær.
Smári McCart­hy og Birgitta Jóns­dótt­ir á blaðamannafundi Pírata í gær. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég held að þetta útspil sé nokkuð snjallt hjá Pírötum,“ segir Bald­ur Þór­halls­son, deild­ar­for­seti stjórn­mála­fræðideild­ar Háskóla Íslands, í sam­tali við mbl.is. Píratar kynntu í gær hvernig flokkurinn hyggst standa að stjórnarmyndunarviðræðum fyrir komandi Alþingiskosningar.

Pírat­ar hafa sent fjór­um flokk­um bréf um mögu­leg­ar stjórn­ar­viðræður eft­ir kosn­ing­ar. Það eru Björt framtíð, Sam­fylk­ing­in, Vinstri græn og Viðreisn. Þeir munu síðan skila skýrslu um viðræður við flokkana til kjósenda þann 27. október, tveimur dögum fyrir kosningar.

Vilja breyta íslenskum kosningahefðum

„Þrátt fyrir að þessi tilraun sé dæmd til að mistakast, vegna þess að það er mjög óraunhæft að það náist að gera stjórnarsáttmála á þeim skamma tíma sem er til kosninga, þá staðfestir hún að Píratar eru rótækt umbótaafl sem er staðráðið í því að breyta íslenskum kosningahefðum. Mig grunar að það séu skilaboðin sem Píratar eru að senda með þessu,“ bætir Baldur við.

Áður var vitað að forystumenn Pírata, Vinstri grænna og Samfylkingar útilokuðu samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Píratar hafi með yfirlýsingu gærdagsins hafnað samstarfi við nýja forystu Framsóknarflokksins. „Þeir hafa teygt sig yfir miðjuna til hægri til Viðreisnar. Í þessu felast nokkur tíðindi að breytt forystusveit Framsóknarflokksins er ekki nóg fyrir Pírata til að vinna með flokknum,“ segir Baldur og telur ennfremur að Píratar séu að stela senunni af Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum, sem höfðu báðir mælst stærri en Píratar í skoðanakönnunum:

Styrkja stöðu sína

Forystusveit Pírata gefur skýrt til kynna að hún ætlar að vera leiðandi í næstu ríkisstjórn og ætlar ekki að verða þriðja, fjórða eða jafnvel fimmta hjólið undir vagninum. Þeir ætla að vera aðal og eru komnir til að breyta. Það verður þeirra krafa í stjórnarmyndunarviðræðum.

Baldri þykir ekkert óeðlilegt að fylgi Pírata hafi minkað frá því sem það mældist mest á kjörtímabilinu. „Það hefur verið að draga úr fylgi Pírata og þeir þurftu að gera eitthvað til að spyrna á móti. Þeir þurftu að sýna spilin til þess að styrkja stöðu sína í þessari kosningabaráttu. Það eru þeir að reyna að gera með þessu útspili.“

Flokkar oft talað saman fyrir kosningar

Þrátt fyrir að mögulegar stjórnarmyndunarviðræður séu óvenjulegar fyrir kosningar hér á landi eru til dæmi um slíkt. „Hræðslubandalagið var kosningabandalag Alþýðuflokks og Framsóknarflokks í Alþingiskosningum 1956. Þá gerðu flokkarnir með sér samkomulag um að stilla ekki upp frambjóðendum gegn hvor öðrum í sömu kjördæmum. Það átti að nýta kjördæmaskipanina til að ná meirihluta þingmanna, án þess kannski að hafa meirihluta kjósenda á bak við sig. Þetta mistókst naumlega og flokkarnir fengu 25 af 52 þingmönnum. Þeir þurftu þá að leita til Alþýðubandalags um stjórnarmyndun, sem þeir og gerðu.“ Ekki megi gleyma því að forystumenn flokka hafa oft talað saman fyrir kosningar, þó það hafi ekki verið gert fyrir opnum tjöldum:

Það var til dæmis alla tíð vitað þegar 12 ára stjórnarsamstarf Framsóknar og Sjálfstæðisflokks varði frá 1995-2007 að forystumenn flokkana vildu alltaf vinna saman í kosningum en sögðu það ekki beint út. Ég tel nokkrar líkur á því að menn hafa rætt saman fyrir kosningar og undirbúið jarðveginn,“ segir Baldur og nefnir einnig dæmi frá því þegar Alþýðuflokkur og Sjálfstæðisflokkur mynduðu ríkisstjórn árið 1991:

„Jón Baldvin myndaði þá ríkisstjórn með Davíð Oddssyni. Þá höfðu átt sér stað þreifingar á milli forystumanna flokkanna, þó Alþýðuflokkurinn væri í vinstristjórn. Sjálfstæðisflokkurinn lofaði því á lokuðum leynifundum, veturinn fyrir kosningar, að hann myndi styðja EES-samninginn ef Alþýðuflokkurinn gengi til stjórnarmyndunarviðræðna með honum.“ Sjálfstæðisflokkurinn barðist síðan gegn EES-samningnum í kosningabaráttunni og talaði um gerð tvíhliða samnings við Evrópusambandið. Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur mynduðu ríkisstjórn eftir kosningar 1991, Davíð varð forsætisráðherra og Jón Baldvin utanríkisráðherra.

Svona hafa nú kaupin stundum gerst á eyrinni í íslenskum stjórnmálum. Það er ekkert óeðlilegt að flokkar tali saman og fari af stað með þreifingar fyrir kosningar. Einhverjir aðrir geta sagt að svona hlutir eigi ekki að gerast fyrir opnum tjöldum. Píratar vilja svipta hulunni af þessu baktjaldamakki.

Baldur Þórhallsson.
Baldur Þórhallsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka