„Ég tel að við höfum farið rétt með,“ segir Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Hann segist standa við þá niðurstöðu staðreyndavaktarinnar að fullyrðing Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, um að útlit væri fyrir að afgangur á ríkisfjármálunum á þessu ári yrði meiri en „allur uppsafnaður halli vinstri stjórnarinnar frá 2009-2013“, sé röng.
Frétt mbl.is. Afgangurinn ekki meiri en hallinn
Fjallað var um málið í svari staðreynda- og samfélagsvaktar Vísindavefjar Háskóla Íslands sem birtist á föstudaginn. Höfundur svarsins er Þórólfur Matthíasson. Viðbót við svarið var svo birt í gær þar sem sama niðurstaða er fengin. Ástæðan fyrir viðbótinni var gagnrýni Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem sagði á Facebook-síðu sinni á föstudaginn að staðreyndavaktin færi með rangt mál.
Frétt mbl.is: Svar staðreyndavaktarinnar rangt
Á Facebook-síðu Bjarna kemur meðal annars fram að í umfjöllun staðreyndavaktarinnar er byggt á fjárlagafrumvarpinu en ekki á frumvarpi til fjáraukalaga. „Þegar ummælin hafi verið látin falla hafi ekki verið búið að taka ákvörðun um að greiða tugi milljarða króna til LSR vegna skuldar ríkisins við sjóðinn. Fyrir vikið hafi þá verið gert ráð fyrir rúmlega 400 milljarða afgangi en ekki 326 milljörðum eins og fram komi í umfjöllun staðreyndavaktarinnar,“ sagði m.a. í færslu Bjarna.
Þórólfur er ekki sammála þessu og segir að um einföldun sé að ræða. Hann bendir á að taka verði mið af því hver staðan var þegar Bjarni fullyrti þetta á Alþingi 15. ágúst.
Á þeim tíma hafi verið unnið að lífeyrissjóðsfrumvarpi við opinbera starfsmenn, eins og Bjarni vitnar til. Í lok ágúst hafi formaður BHM, Bandalags háskólamanna, sent aðildarfélögum sínum bréf þess efnis að unnið væri að því að setja þessar upphæðir inn í fjáraukalögin. Vitneskja um þessi útgjöld hafi legið fyrir.
„Menn ákveða ekki að morgni dags að ráðstafa 90 milljörðum króna. Það á sér miklu lengri aðdraganda. Lífeyrismálin hafa verið í gangi allt þetta ár. Á þeim tíma, þegar Bjarni heldur ræðuna, eru þessi áform uppi um að ráðstafa þessum 90 milljörðum til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins,“ segir Þórólfur og bætir við: „Mér finnst Bjarni hafa farið fram úr sér í gagnrýninni á okkur.“