„Við höfum farið rétt með“

Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við HÍ.
Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við HÍ. mbl.is/Styrmir

„Ég tel að við höfum farið rétt með,“ segir Þórólfur Matthíasson, prófessor í hag­fræði við Háskóla Íslands. Hann segist standa við þá niðurstöðu staðreyndavaktarinnar að fullyrðing Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, um að út­lit væri fyr­ir að af­gang­ur á rík­is­fjár­mál­un­um á þessu ári yrði meiri en „all­ur upp­safnaður halli vinstri stjórn­ar­inn­ar frá 2009-2013“, sé röng. 

Frétt mbl.is. Af­gang­ur­inn ekki meiri en hall­inn 

Fjallað var um málið í svari staðreynda- og sam­fé­lags­vakt­ar Vís­inda­vefjar­ Háskóla Íslands sem birtist á föstudaginn. Höf­und­ur svars­ins er Þórólf­ur Matthíasson. Viðbót við svarið var svo birt í gær þar sem sama niðurstaða er fengin. Ástæðan fyrir viðbótinni var gagnrýni Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem sagði á Facebook-síðu sinni á föstudaginn að staðreyndavaktin færi með rangt mál. 

Frétt mbl.is: Svar staðreynda­vakt­ar­inn­ar rangt

Fjár­laga­frum­varp­ og frum­varp til fjár­auka­laga

Á Facebook-síðu Bjarna kemur meðal annars fram að í um­fjöll­un staðreynda­vakt­ar­inn­ar er byggt á fjár­laga­frum­varp­inu en ekki á frum­varpi til fjár­auka­laga. „Þegar um­mæl­in hafi verið lát­in falla hafi ekki verið búið að taka ákvörðun um að greiða tugi millj­arða króna til LSR vegna skuld­ar rík­is­ins við sjóðinn. Fyr­ir vikið hafi þá verið gert ráð fyr­ir rúm­lega 400 millj­arða af­gangi en ekki 326 millj­örðum eins og fram komi í um­fjöll­un staðreynda­vakt­ar­inn­ar,“ sagði m.a. í færslu Bjarna.

Þórólfur er ekki sammála þessu og segir að um einföldun sé að ræða. Hann bendir á að taka verði mið af því hver staðan var þegar Bjarni fullyrti þetta á Alþingi 15. ágúst.

Á þeim tíma hafi verið unnið að lífeyrissjóðsfrumvarpi við opinbera starfsmenn, eins og Bjarni vitnar til. Í lok ágúst hafi formaður BHM, Bandalags háskólamanna, sent aðildarfélögum sínum bréf þess efnis að unnið væri að því að setja þessar upphæðir inn í fjáraukalögin. Vitneskja um þessi útgjöld hafi legið fyrir.

„Menn ákveða ekki að morgni dags að ráðstafa 90 milljörðum króna. Það á sér miklu lengri aðdraganda. Lífeyrismálin hafa verið í gangi allt þetta ár. Á þeim tíma, þegar Bjarni heldur ræðuna, eru þessi áform uppi um að ráðstafa þessum 90 milljörðum til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins,“ segir Þórólfur og bætir við: „Mér finnst Bjarni hafa farið fram úr sér í gagnrýninni á okkur.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert