„Ég tel rétt að ég einbeiti mér nú að málefnum kjördæmisins en gefi þeim sem hafa tekið að sér að leiða mál á landsvísu svigrúm til þess. Það fer því sennilega best á því að þeir sem settu saman og kynntu kosningastefnuna tali fyrir henni og þeim málum sem þar eru sett á oddinn.“
Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, alþingismaður og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, í Morgunblaðinu í dag.
Kosningamál flokksins voru kynnt á sunnudag og ber þar sennilega hæst tillögu um breytingar á skattkerfinu og jöfnun tekjuskatts. Sigmundur vill þó ekki tjá sig um það mál að sinni né önnur þau sem Sigurður Ingi Jóhannsson og Lilja Dögg Alfreðsdóttir kynntu.