Atkvæði gildir alltaf í kjördæmi kjósanda

Utankjörfundarkosning í Laugardalshöll. Mynd úr safni. Atkvæði er alltaf talið …
Utankjörfundarkosning í Laugardalshöll. Mynd úr safni. Atkvæði er alltaf talið í því kjördæmi þar sem kjósandi er á kjörskrá, sama hvar kosið var. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ekki er rétt að kjósendur geti látið lista, sem býður sig fram í öðru kjördæmi en þar sem þeir eiga lögheimili, njóta góðs af atkvæði sínu með því að greiða atkvæði utan kjörstaðar, líkt og Íslenska þjóðfylkingin fullyrti á Facebook-síðu sinni um síðustu helgi.

„Ég hef heyrt þessa fullyrðingu áður. Stutta svarið er hins vegar að þetta er bara alls ekki hægt,“ segir Karl Gauti Hjaltason, formaður yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis. „Kjörskráin gildir og það ekki hægt að kjósa í öðru kjördæmi en þar sem maður er á kjörskrá.“

„Það er alvarlegt mál ef framboð er að reyna beina kjósendum í að fara þannig með atkvæði sín að gera þau ógild vegna vankunnáttu um kosningareglur og það er eitthvað sem verður að leiðrétta.“

Frétt mbl.is: Þjóðfylkingin kærir stuld

Í færslu á Facebook-síðu flokksins segir að „ný­leg kosn­inga­lög gera það að verk­um að fólk í öðrum kjör­dæm­um get­ur kosið flokk­inn utan­kjörstaðar án þess að færa lög­heim­ili sitt en látið at­kvæðið renna til flokks­ins í þess­um kjör­dæm­um.“

Karl Gauti hefur átt sæti í yfirkjörstjórn í tæpa tvo áratugi og hann segir þarna væntanlega um að ræða misskilning á 80. grein kosningalaga.

„Það ákvæði fjallar hins vegar um allt aðra hluti og á við þegar fólk er að kjósa innan sama kjördæmis.“

Hann nefnir sem dæmi að einstaklingur sem búsettur er í Grindavík og á kjörskrá þar og er staddur á Hornafirði, hann geti afsalað sér kosningarétti í Grindavík og kosið á Hornafirði í staðinn. „En þá er hann líka staddur innan sama kjördæmis,“ segir hann.

Í þessu, líkt og öllum öðrum tilfellum, verði atkvæði talið í því kjördæmi þar sem kjósandinn er á kjörskrá. „Þú getur kosið hjá sýslumönnum um allt land, en atkvæðið fer alltaf í þitt kjördæmi. Ef þú ert á kjörskrá í Reykjavík en kýst á Akureyri fer atkvæðið til Reykjavíkur og verður talið þar.“

Íslenska þjóðfylkingin virðist ekki heldur telja þennan kost mögulegan lengur og hvatti í gær þess í stað stuðningsmenn sína til að ógilda kjörseðilinn með skrifa yfir hann stór „E“ eða skila auðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert