Stutt kjörtímabil og utanþingsráðherrar

Smári McCarthy, frambjóðandi Pírata.
Smári McCarthy, frambjóðandi Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Píratar telja mikilvægt að komist þeir í ríkisstjórn verði lögð áhersla á að afgreiða nýja stjórnarskrá eins fljótt og auðið er. Fyrir vikið telji þeir æskilegt að næsta kjörtímabil verði styttra en fjögur ár svo hægt verði að afgreiða nýja stjórnarskrá með samþykki tveggja þinga með þingkosningum á milli eins og núgildandi stjórnarskrá geri ráð fyrir.

Þetta segir Smári McCarthy, oddviti Pírata í Suðurkjördæmi, í samtali við mbl.is. Smári segir Pírötum ekki hugnast að beita bráðabirgðaákvæði sem sett var í stjórnarskrána fyrir síðustu þingkosningar þess efnis að breyta megi henni með þjóðaratkvæðagreiðslu. Það ákvæði er í gildi fram á næsta vor. Smári segir að krafa í ákvæðinu um að 40% kjósenda á kjörskrá samþykki breytinguna sé að mati Pírata allt of hár þröskuldur. Þess utan sé mjög ólíklegt að hægt verði að klára vinnu á þingi við samþykkt nýrrar stjórnarskrár fyrir næsta vor.

Stjórnarskrármálið varla klárað fyrir vorið

„Jafnvel þótt við settum málið á fullt er ólíklegt að það yrði hægt að klára það fyrir næsta vor. Það er ekki alveg útilokað en mjög ólíklegt. Sérstaklega þar sem fara þarf í fjárlagavinnu strax eftir kosningar og síðan eru fleiri stór mál sem þarf að taka á eins og lífeyrismálin,“ segir Smári. Fyrir vikið kæmi bráðabirgðaákvæðið hvort sem er ekki til greina.

Spurður hvort til greina kæmi að halda þjóðaratkvæði um nýja stjórnarskrá þegar vinnu við hana væri lokið í ljósi þess að ekki er gert ráð fyrir slíkri beinni aðkomu kjósenda að breytingum á stjórnarskránni með hefðbundnu aðferðinni segir Smári að svo kunni vel að vera þó í raun sé þegar búið að kjósa um hana. En það yrði einfaldlega metið.

Píratar hafa það að stefnu sinni að fram fari bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur um það hvort áfram verði sóst eftir inngöngu í Evrópusambandið. Aðspurður segir Smári að forsenda þess sé breytt stjórnarskrá og ákvæði um slík þjóðaratkvæði. Ráðgefandi þjóðaratkvæði væru í raun hálfgagnslaus enda sýnt sig að stjórnmálamenn væru reiðubúnir að hunsa niðurstöður þeirra.

Stjórnarskráin fyrst og síðan kosning um ESB

„Þetta er ástæðan fyrir því að við leggjum svo mikla áherslu á að klára stjórnarskrána sem fyrst. Það er margt annað sem er í rauninn ekki hægt að gera á eðlilegum nótum fyrr en það mál hefur verið klárað,“ segir Smári. Það mætti engu að síður fara að undirbúa þjóðaratkvæði um Evrópusambandsmálið áður. Þetta væri samt ekki algerlega greipt í stein.

Spurður hvort Píratar séu enn þá á því að hafa utanþingsráðherra segir Smári svo vera. En þá sé fyrst og fremst átt við að ef einhverjir þingmenn Pírata verði ráðherrar gegni þeir ekki þingmennsku á sama tíma. Varaþingmenn verði þá kallaðir inn í stað þeirra. „Við erum líka opin fyrir því að fá fólk utan þings til þess að gegna ráðherraembættum,“ segir hann. Sum ráðuneyti væru hins vegar í eðli sínu pólitísk eins og forsætisráðuneytið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert