Viðreisn vill frjálslynda miðjustjórn

Þorsteinn Víglundsson, oddviti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Þorsteinn Víglundsson, oddviti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég held einfaldlega að það sé komið að hinni frjálslyndu miðju og það er sú ríkisstjórn sem við viljum hafa forgöngu um að mynda ef við fáum stuðning til þess. Frjálslynda og umbótasinnaða miðjustjórn,“ segir Þorsteinn Víglundsson, oddviti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, í samtali við mbl.is. Þorsteinn hefur sagt að flokkurinn útiloki ekki samstarf við neinn af þeim flokkum sem eigi möguleika á þingsætum samkvæmt skoðanakönnunum.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu í gær að flokkurinn myndi ekki ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Sagði hann ekki útilit fyrir að hægt yrði að koma á þeim breytingum sem Viðreisn leggði áherslu á í samstarfi við þessa tvo flokka. „Ég tel það afar ólík­legt að við getum náð saman við þá. Ég held að það sé miklu lík­legra að við náum saman við aðra flokka,“ sagði hann ennfremur.

Frétt mbl.is: Fara ekki í samstarf við stjórnarflokkana

Þorsteinn segist telja að hinn stóri meirihluti kjósenda lægi á miðjunni en stjórnmálamenn væru alltaf að reyna að toga þá til öfganna annað hvort til hægri eða vinstri. „Það eru flokkar vinstramegin við okkur og hægra megin við okkur endalaust að reyna að skilgreina okkur í aðra áttina en við erum miðjuflokkur og við útilokum ekki nokkurn flokk sem er tilbúinn að vinna með okkur í frjálslyndri umbótasinnaðri miðjustjórn.“

Þorsteinn segir engan ágreining vera um þetta innan Viðreisnar. Spurður með tilvísun í orð Benedikts hvort samstarf yrði ekki að byggjast á áherslum Viðreisnar segir Þorsteinn að það gæfi auga leið. „Við teljum að þessi málefni höfði til hinnar frjálslyndu miðju og það eru þau málefni sem við erum að leggja upp með.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert