„Mér finnst það í fyrsta lagi sárt að ég sé ekki inni og í öðru lagi þá finnst mér þetta fjandi lítið og lélegt fylgi eftir ágæta stjórnartíð,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur er meðal þeirra þingmanna sem munu detta út af þingi samkvæmt nýjustu könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem gerð var fyrir Morgunblaðið á fylgi flokkanna fyrir alþingiskosningarnar 29. október.
Sjá frétt mbl.is: Áfram sveiflast fylgið
Samkvæmt könnuninni eru Píratar stærsti flokkur landsins með 23% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn kemur þar á eftir með 21% fylgi. Vilhjálmur hefur setið á þingi frá 2013 og skipar 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. „Ég er bjartsýnn og trúi enn á könnunina sem birtist hjá Stöð 2 í gærkvöldi, þá var ég inni.“ Vilhjálmur segist ekki vera farinn að hugsa út í hvað hann muni taka sér fyrir hendur ef niðurstaðan verði sú að hann nái ekki kjöri. „En í versta falli verð ég kennari í viðskiptafræðinni.“
Framsóknarflokkurinn mælist með 9% fylgi í könnuninni og fengi sex þingmenn kjörna. Karl Garðarsson skipar 1. sæti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður og kæmist ekki inn á þing samkvæmt könnuninni. „Miðað við þessar heildartölur hjá flokknum þá kemur það ekki á óvart að ég skuli ekki vera inni í Reykjavík norður, þetta er efiðasta kjördæmi flokksins og hefur verið það til þessa,“ segir Karl í samstali við mbl.is. Meðal ástæða þess að kjördæmið reynist Framsóknarmönnum erfitt nefnir Karl að Píratar séu til að mynda mjög sterkir í kjördæminu.
Karl telur að miklar sveiflur verði á fylgi flokkanna síðustu viku fyrir kosningar. „ Ég hef mikla trú á því að við munum bæta við okkur ansi miklu á þessari síðustu viku fyrir kosningar og verðum með meira fylgi en þetta.“ Karl hefur ekki leitt hugann að því hvað taki við hjá honum eftir kosningar, nái hann ekki kjöri. „Ég stefni bara að því að vera þingmaður áfram, það er ekkert öðruvísi með það.“
Ef rýnt er í fylgi flokkanna í einstökum kjördæmum sést meðal annars að Samfylkingin næði ekki inn manni í Reykjavíkurkjördæmi suður, en þar leiðir Össur Skarphéðinsson þingmaður listann. Össur er meðal reyndustu manna á þingi, en hann hefur gegnt þingmennsku frá 1991.
Aðrir reyndir þingmenn sem ekki næðu inn á þing, ef kosningar færu á sama veg og niðurstöður könnunarinnar, eru meðal annars Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, en hann hefur setið á þingi frá 2003.