Áfram sveiflast fylgið

Píratar og Sjálfstæðisflokkur fengju hvor um sig 15 þingmenn yrði gengið til kosninga núna. Þetta sýnir könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið á fylgi flokkanna fyrir alþingiskosningarnar 29. október.

Samkvæmt henni eru Píratar stærsti flokkur landsins með 23% fylgi, Sjálfstæðisflokkur mælist næststærstur með 21% og Vinstri græn eru með 19% fylgi og 13 þingmenn. Framsóknarflokkurinn mælist með 9% og sex þingmenn,

Viðreisn mælist með 9% og fengi sex þingmenn, en fylgi Viðreisnar mælist nú um fjórðungi minna en í síðustu tveimur könnunum þegar 11-12% sögðust ætla að kjósa flokkinn.

Samfylkingin fengi 6% og fjóra þingmenn og Björt framtíð mælist með sama fylgi og sama þingmannafjölda. Flokkur fólksins mælist með 4% og nær ekki manni á þing.

Aðrir flokkar mælast með minna.

Ýmsir möguleikar

Verði þetta niðurstöður kosninganna er tveggja flokka meirihlutastjórn ekki möguleg, en allnokkrir möguleikar eru á þriggja flokka stjórn. Til dæmis gætu Píratar og Sjálfstæðisflokkur myndað stjórn með hvaða flokki sem er af þeim flokkum sem ná inn þingmönnum samkvæmt könnuninni.

Sé litið til hugmyndar Pírata um kosningabandalag með stjórnarandstöðuflokkunum og Viðreisn, væri hægt að mynda slíka þriggja flokka stjórn með aðild Pírata og VG, sem samkvæmt könnuninni fá samtals 28 þingmenn og annaðhvort Samfylkingu, Bjartri framtíð eða Viðreisn.

Þetta er þriðja könnunin sem Félagsvísindastofnun vinnur fyrir Morgunblaðið þar sem fylgi flokkanna fyrir komandi kosningar er kannað, en þær fyrri voru birtar 7. og 14. október. Séu niðurstöður þeirra bornar saman við þá sem hér er kynnt sjást talsverðar sveiflur í fylgi sumra flokka. Til dæmis mældist fylgi Pírata 20% í fyrstu könnuninni, 18% í þeirri næstu og nú mælist það 23%. Fylgi Bjartrar framtíðar sveiflast einnig nokkuð, fyrst var það 4%, síðan 8% og nú mælist það 6%. Þá hefur VG bætt við sig einu prósentustigi með hverri könnun. Fylgi Sjálfstæðisflokksins stendur í stað frá fyrri könnun, en var 26% í þeirri fyrstu.

Reyndir þingmenn detta út

Þegar fylgi flokkanna í einstökum kjördæmum er skoðað sést m.a. að Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, nær inn á þing en fyrri kannanir Félagsvísindastofnunar sýndu að hún yrði utan þings. Flokkurinn næði ekki inn manni í Reykjavíkurkjördæmi suður, en þar leiðir Össur Skarphéðinsson þingmaður listann.

Aðrir reyndir þingmenn sem ekki næðu inn á þing, ef kosningar færu á sama veg og niðurstöður könnunarinnar, eru m.a. Helgi Hjörvar Samfylkingu, Vilhjálmur Bjarnason Sjálfstæðisflokki og Karl Garðarsson Framsóknarflokki.

Könnunin var gerð dagana 13. til 19. október. Um var að ræða bæði net- og símakönnun og var fjöldi í úrtaki 2.300. Svarhlutfall var 59,4% og þar af tóku 81,2% afstöðu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka