Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna stefna að því að funda um helgina um mögulegt samstarf eftir þingkosningarnar. Þetta segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is.
Píratar sendu á dögunum Samfylkingunni, Vinstrihreyfingunni - grænu framboði, Bjartri framtíð og Viðreisn bréf um mögulegt stjórnarsamstarf eftir kosningar. Viðræður um það færu fram fyrir kosningarnar og skýrsla um niðurstöður þeirra lægi fyrir tveimur dögum fyrir þær.
Samfylkingin tók strax vel í hugmyndina en meiri efasemdir voru hjá VG, Bjartri framtíð og Viðreisn. Píratar funduðu með Samfylkingunni á mánudaginn en hafa ekki fundað með öðrum flokkum að sögn Birgittu. Fundurinn um helgina er að ósk VG og Bjartrar framtíðar.
„Okkur fannst alveg sjálfsagt að taka tillit til þeirra óska,“ segir Birgitta. „Við ætlum að hittast um helgina, sennilega á sunnudaginn, þegar okkur tekst að ná öllum saman. Það er svo mikið að gera hjá öllum. Við ætlum fyrst og fremst að skoða málefnin. Hvað stendur út af.“
Viðreisn hafi hins vegar ekki viljað taka þátt í viðræðunum. Benedikt Jóhannsson, formaður flokksins, hefur sagt að hann telji stjórnarmyndurnarviðræður eiga heima eftir kosningar þegar umboð kjósenda liggi fyrir. Engu að síður telji hann líklegra að Viðreisn geti náð fram stefnumálum sínum í samstarfi við stjórnarandstöðuflokkana en núverandi stjórnarflokka.