„Við höfum verið að mælast á bilinu 21 - 28% á undanförnum tveimur vikum og teljum að við liggjum þar á milli. Við stefnum á að enda í efri hluta þessa bils,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við mbl.is.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 21,1% fylgi í skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið á fylgi flokkanna fyrir alþingiskosningarnar 29. október.
Frétt mbl.is: Áfram sveiflast fylgið
Samkvæmt þessu fengi flokkurinn 15 þingmenn kjörna og myndi missa fjóra menn en flokkurinn fékk 19 menn kjörna í kosningunum fyrir þremur árum.
„Það sem kjósendur geta séð af þessu er að án Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn þá stefnir hér í hreina vinstri stefnu að kosningum afstöðnum og að því leytinu til hafa undanfarnir dagar verið ágætir,“ sagði Bjarni og bætti við að valkostirnir hefðu kristallast:
„Þetta verður ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum eða ríkisstjórn með Pírötum og Vinstri Grænum.“
Aðspurður hvort Bjarni íhugaði að segja af sér sem formaður Sjálfstæðisflokksins ef þetta yrði niðurstaðan í kosningunum eftir átta daga var svarið einfalt: „Ég ætla ekki að svara svona spurningum sem eru allar í viðtengingarhætti.“