Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna fjögurra, Bjartrar framtíðar, Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna, ætla að funda aftur á fimmtudaginn um mögulega stjórnarmyndun þeirra eftir kosningar.
Engin niðurstaða varð af nær tveggja tíma fundi þeirra í gær og voru þeir ekki margorðir þegar Morgunblaðið innti þá eftir upplýsingum um viðræðurnar. Í umfjöllun um fund þennan í Morgunblaðinu í dag segir Einar Brynjólfsson, fulltrúi Pírata á fundinum, að ákveðið hefði verið að gefa ekki neitt út um þau málefni sem sett yrðu á oddinn.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, kallar fundinn uppákomu. „Vinstriflokkarnir hittust í nafni gagnsæis og betra lýðræðis en svo er ekki hægt að greina frá því sem gerist á fundinum. Eins er skondið að sjá fólk sem við höfum haft samskipti við og hefur starfað saman allt þetta kjörtímabil þurfa að taka sér tíma til að hittast á kaffihúsi í klukkutíma til að athuga hvort það geti talað saman,“ segir Bjarni og bætir því við að augljóslega sé verið að ræða stólaskipti í ríkisstjórn.