„Við verðum bara að sjá til,“ segir Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is spurð hvort viðræður stjórnarandstöðuflokkanna um mögulegt stjórnarsamstarf eftir þingkosningarnar á laugardaginn séu líklegar til þess að skila sér í stjórnarsáttmála eða formlegu samkomulagi um slíkt samstarf. Fulltrúar flokkanna funduðu síðasta sunnudag í tvær klukkustundir og er stefnt að því að hittast aftur á fimmtudaginn.
Píratar sendu í síðustu viku bréf til fjögurra stjórnmálaflokka þar sem kallað var eftir viðræðum um stjórnarsamstarf. Flokkarnir eru Samfylkingin, Vinstrihreyfingin - grænt framboð, Björt framtíð og Viðreisn. Samfylkingin tók strax vel í hugmyndina en bæði VG og Björt framtíð lýstu ákveðnum efasemdum um slíkar viðræður fyrir kosningar. Hins vegar útilokuðu Píratar mögulegt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn.
Frétt mbl.is: Flokkarnir funda aftur á fimmtudaginn
Píratar ætluðu upphaflega að funda með hverjum flokki fyrir sig til að byrja með en ákváðu að verða við þeirri kröfu VG og Bjartrar framtíðar að þess í stað myndu allir flokkarnir funda í einu. Viðreisn afþakkaði hins vegar þátttöku í viðræðunum. Töldu fulltrúar flokksins að slíkar viðræður ættu frekar heima eftir kosningar.
„Við erum bara að tala við okkar bakland og vera í óformlegu sambandi á milli funda. Síðan sjáum við bara hvað setur,“ segir Oddný. Spurð hvort hún sé bjartsýn á að viðræðurnar skili sér í stjórnarsamstarfi og að nánast verði hægt að mæta á Bessastaði strax eftir kosningar segir Oddný að það þurfi nú meiri undirbúningsvinnu til þess.
„En orð eru til alls fyrst og þarna eru flokkar sem hafa unnið vel saman á öllu kjörtímabilinu. Það eru ákveðin mál sem við erum nokkuð vel sammála um, stór og mikilvæg mál, og þess vegna gæti þetta orðið grundvöllur að umbótastjórn. En það er bara of snemmt að segja til um það. Síðan eru auðvitað kosningarnar eftir. En allavega mun svona samtal alltaf skila sér. Hvort sem það er í stjórnarandstöðu eða inn í ríkisstjórn,“ segir Oddný.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, talar á svipuðum nótum í samtali við mbl.is. „Þetta er gott samtal eins og okkar samtal hefur verið öll þessi ár en við gerum nú ekki stjórnarsáttmála áður en búið er að kjósa. Það er nokkuð ljóst.“ Spurður hvort hann eigi von á einhvers konar samkomulagi um samstarf fyrir kosningar segir hann: „Það er frekar að menn nái einhvers konar sameiginlegum skilningi á framhaldið.“
Frétt mbl.is: Píratar útiloka stjórnarflokkana
Óttarr segir að viðræðurnar nú séu í raun einfaldlega framhald á því samtali sem átt hefði sér stað á milli stjórnarandstöðuflokkanna á kjörtímabilinu. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segir að flokkarnir hafi einfaldlega borið saman bækur sínar á fundinum á sunnudaginn og hvað þeir legðu áherslu á. Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, fulltrúi í viðræðunefnd Pírata segist bjartsýnn á að fimmtudagsfundurinn skili einhvers konar samkomulagi.
Samkvæmt heimilum mbl.is innan úr stjórnarandstöðuflokknum eru litlar sem engar líkur taldar á því að hægt verði að ljúka viðræðum á milli flokkanna áður en kosningarnar fara fram. Bæði sé ekki nægjanlegur tími til þess að klára þá vinnu og eins sé ekki rétt að klára slíka vinnu áður en niðurstöður kosninganna liggja fyrir. Hins vegar geti viðræðurnar nýst sem undirbúningur fyrir frekari viðræður eftir kosningar.