Hafa verulegar áhyggjur af staðsetningu spítalans

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins á blaðamannafundi um þjóðarsjúkrahús.
Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins á blaðamannafundi um þjóðarsjúkrahús. mbl.is/Golli

Framsóknarflokkurinn setur nýtt þjóðarsjúkrahús á oddinn fyrir komandi alþingiskosningar og vill faglega úttekt á staðarvali. Lagt er til að hópur erlendra sérfræðinga komi að úttektinni og skili af sér verkinu fyrir 30. apríl 2017. 

Boðað var til blaðamannafundar um þrjúleytið í dag þar sem Lilja Alfreðsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og fulltrúar frá samtökunum Betri spítali tilkynntu áformin og lýstu Hringbraut sem óheppilegri staðsetningu fyrir nýtt sjúkrahús.  

Framsóknarflokkurinn leggur eftirfarandi til samkvæmt fréttatilkynningu:

  • Hópur óháðra sérfræðinga geri tillögu að nýju staðarvali fyrir 30. apríl 2017
  • Erlendir sérfræðingar leiði vinnuna
  • Stuðst verði við sömu aðferðarfræði og beitt var við losun fjármagnshafta og Leiðréttinguna, þar sem hagsmunir almennings og skýr stefna varðaði leiðina

50 til 100 milljörðum hagstæðara

Í upphafi fundar sagðist Lilja hafa verulegar áhyggjur yfir núverandi staðarvali. Fara þyrfti í frekari greiningarvinnu og vinna með grasrótinni því bygging nýs spítala væri ein stærsta fjárfestingin á dagskrá ríkisins.

Samtökin Betri spítali eru hópur fólks sem hefur áhuga á að leita ákjósanlegri staðsetningar fyrir nýjan spítalaen við Hringbraut. Fjórir fulltrúar samtakanna mættu á blaðamannafundinn og mæltu fyrir því að horfið yrði frá núverandi áformum. 

Samkvæmt greiningarvinnu samtakanna væri um 50 til 100 milljörðum hagstæðara að byggja á betri stað þegar búið væri að núvirða tölurnar. Fullyrt var að uppsöfnuð þörf gerði nýjan spítala á Hringbraut úreltan fyrir lok byggingartímans, sem er 10 til 15 ár, vegna fólksfjölgunar, ferðamannafjölgunar og breyttrar aldurssamsetningar. Þá væri staðsetningin á Hringbraut hvorki í samræmi við framtíðarútþenslu byggðar né helstu samgönguæðar borgarinnar. 

Heilbrigðisstarfsfólk vill aðra staðsetningu 

Hópurinn lagði fram tillögu að nokkrum stöðum sem gætu komið til skoðunar: Keldnalandi, Vogabyggð og Vífilsstaðalandi. Kostirnir sem þessir staðir hefðu umfram Hringbraut væru til dæmis að sjúklingar hefðu náttúru og ferskt loft og þyrftu ekki að ná bata í návist framkvæmda og sprenginga meðan uppbygging stæði yfir. 

Fulltrúi Betri spítala sagði að heilbrigðisstarfsfólk væri almennt á sama máli. Samkvæmt könnun meðal lækna og hjúkrunarfæðinga hefði meirihluti beggja stétta verið hlynntur því að finna aðra staðsetningu og var hlutfallið meðal hjúkrunarfræðinga um 80%. 

Módel af sjúkrahúsinu sett inn á mynd af Vogabyggð.
Módel af sjúkrahúsinu sett inn á mynd af Vogabyggð. Betri spítali

Sigurður Ingi Jóhannssn formaður lauk fundinum. Hann sagði að nú væri tækifærið til að breyta framkvæmd sem sérfræðingar teldu óskynsamlega og Framsókn hefði sýnt þor og þrek til að fara óhefðbundnar leiðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert