Kosningabarátta Pírata mun kosta um 16,6 milljónir að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá stjórnmálaflokknum.
Kosningabaráttan er fjármögnuð með uppsöfnuðum ríkisstyrk og frjálsum framlögum í gegnum Karolinafund-söfnun flokksins. Þar hafa safnast um 4 milljónir króna. Píratar áætla að reka baráttuna með minniháttar halla, innan við tvær milljónir.
„Þá má geta þess að þingflokkur Pírata var tilbúinn til þess að styrkja Pírata um 2.000.000 kr. en samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálaflokka er lögaðilum ekki heimilt að styrkja stjórnmálaflokka um meira en 400.000 kr. á ári og þáðu Píratar þann styrk,“ segir í tilkynningu frá Pírötum.