Stjórnarandstöðuflokkarnir gætu ekki myndað meirihlutastjórn, ef niðurstöður alþingiskosninganna verða í samræmi við nýjustu könnun Stöðvar 2, Fréttablaðsins og Vísis sem birt var á Vísi í kvöld.
Til að ná meirhluta á Alþingi þarf 32 þingmenn en núverandi stjórnarandstaða fengi aðeins 30 þingmenn samkvæmt könnuninni. Stjórnarflokkarnir ná heldur ekki meirihluta með 26 þingmönnum.
Úrtakið var óvenjustórt, 2.006 manns, og þar af svöruðu 1.564 en svarhlutfallið var 70,9 prósent.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist langstærstur með 27,3% fylgi sem samsvarar 18 þingmönnum. Næst koma Píratar með 18,4% og tólf þingmenn.
Vinstri græn bæta við sig tæpum sex prósentum frá síðustu kosningum og mælast nú með 16,4% sem myndi skila sér í ellefu þingmönnum. Viðreisn fengi sjö þingmenn en flokkurinn mælist með 10,5%. Framsókn tapar hinsvegar heilmiklu fylgi og er nú með 9,9% í samanburði við rúm 24% í síðustu kosningum, eða átta þingmenn í samanburði við 19.
Þá er Björt framtíð orðin stærri en Samfylkingin. Hún fengi 6,3% og fjóra þingmenn, en Samfylking er í hættu á að detta af þingi með aðeins 5,7% fylgi og fjóra þingmenn.
Ljóst er að Píratar, Samfylkingin, Vinstri græn og Björt framtíð, sem hafa undanfarna daga staðið í viðræðum um kosningabandalag, næðu ekki meirihluta á Alþingi með þessu fylgi og sama gildir um stjórnarflokkana, Framsókn og Sjálfstæðisflokkinn.
Stjórnarmyndun virðist því ólíkleg án aðkomu Viðreisnar. Með stjórnarandstöðuflokkunum væri hægt að mynda ríflegan 37 þingmanna meirhluta. Með stjórnarflokkunum væri hinsvegar hægt að mynda 33 þingmanna meirihluta.