Valkostur við stjórnarflokkana

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, Oddný …
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Golli

Stjórnarandstöðuflokkarnir telja fulla ástæðu til þess að kanna möguleika á myndun meirihlutastjórnar að loknum þingkosningunum á laugardaginn fái flokkarnir til þess umboð. Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu sem send hefur verið út í kjölfar fundar fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna í morgun.

Þar segir að farið hafi verið yfir kosningaáherslur flokkanna, Pírata, Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Bjartrar framtíðar, á tveimur fundum og að þar sé að finna mikinn samhljóm. „Við teljum samstarf þessara flokka vera skýran valkost við núverandi stjórnarflokka sem getur skapað ný tækifæri fyrir íslenskt samfélag.

Yfirlýsingin í heild:

„Í dag hittust formenn og talsmenn Pírata, Vinstri Grænna, Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar á ný. Þessir flokkar hafa unnið vel saman í stjórnarandstöðu á þessu kjörtímabili sem er óvenju stutt vegna afhjúpana Panama-skjalanna sem sýndu tengsl ríkisstjórnarflokkanna við aflandsfélög í skattaskjólum.

Nú er rétti tíminn til að ráðast í þau verk sem þjóðin kallar eftir, uppbyggingu innviða og skapa traustan og stöðugan grunn fyrir aukin lífsgæði. Það þarf nýja forgangsröðun og sýn á samfélagið. Til að varanlegur stöðugleiki komist á, verður að ástunda ábyrga efnahagsstjórn en jafnframt vinna að félagslegum stöðugleika. Að öðrum kosti næst ekki sátt í samfélaginu að loknum kosningum. Þörf er á betri vinnubrögðum sem byggjast á fagmennsku, samvinnu og gagnsæi. Vanda þarf til verka og innleiða kerfisbreytingar skref fyrir skref.

Við höfum nú á tveimur fundum skoðað kosningaáherslur flokkanna og finnum mikinn samhljóm. Við teljum samstarf þessara flokka vera skýran valkost við núverandi stjórnarflokka sem getur skapað ný tækifæri fyrir íslenskt samfélag.

Á grundvelli þessa teljum við fulla ástæðu til að kanna möguleika á myndun meirihlutastjórnar ef þessir flokkar fá til þess umboð í komandi kosningum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert