Píratar og Sjálfstæðisflokkur berjast

Baldur Þórhallsson.
Baldur Þórhallsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það virðist ekki vera neitt óeðlilegt við þetta. Þetta er á þessu bili sem flokkarnir hafa verið að mælast á. Það eru alltaf einhverjar sveiflur á milli kannana, sem geta legið í úrtakinu sem var tekið hverju sinni,“ segir Bald­ur Þór­halls­son, deild­ar­for­seti Stjórn­mála­fræðideild­ar, í samtali við mbl.is.

Talsverður munur er á fylgi stærstu flokkanna tveggja í könnun Fréttablaðsins frá því í gær annars vegar og könnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Morgunblaðið í dag. 

Sjálfstæðisflokkurinn að styrkja sig

„Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að styrkja stöðu sína. Að sama skapi verður maður að halda því til haga að Fréttablaðið virðist mæla hann stærra en aðrar kannanir. Ég man eftir því einu sinni fyrir síðustu kosningar, þá mældist Framsóknarflokkurinn með 40% í könnun og um daginn var Sjálfstæðisflokkurinn með 35%,“ segir Baldur og bætir því við að það geti verið skekkja í úrtakinu.

Kannanir síðustu daga sýni þó sömu meginlínur. „Þær gefa það að Píratar og Sjálfstæðisflokkurinn eru að berjast um fyrsta sætið. Sjálfstæðisflokkurinn virðist aðeins vera að styrkja stöðu sína. Það er ekki ljóst, samkvæmt könnunum, hvor flokkurinn verður stærri,“ segir Baldur en hann telur það skipta miklu máli hversu vel yngri kjósendur mæti á kjörstað:

Við höfum vísbendingar um það að ef yngsti kjósendahópurinn mætir illa á kjördag þá mun það draga úr fylgi Pírata. Að sama skapi mun það styrkja stöðu Sjálfstæðisflokksins því eldri kjósendur eru líklegri til að mæta og kjósa hann.“

Samkvæmt könnunum síðustu daga er óvíst hvort stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir sem hafa verið að tala saman fyrir kosningar ná meirihluta. „Svo eru tveir flokkar á þingi sem rétt ná mönnum inn á þing samkvæmt könnunum; Björt framtíð og Samfylkingin. Það verður fróðlegt að sjá á morgun hvort þeir verði að berjast í bökkum á morgun.

Snúnar stjórnarmyndunarviðræður

Ljóst er að morgundagurinn verður spennuþrunginn en Baldur bendir á að stjórnarmyndunarviðræður gætu reynst snúnar. „Ef stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir á þingi ná ekki meirihluta má gera ráð fyrir því að þeir bjóði Viðreisn til samstarfs. Ég geri ráð fyrir því að þessir fimm flokkar myndu reyna að mynda stjórn vegna þess að Viðreisn hefur útilokað að verða þriðja hjól undir vagni ríkisstjórnarflokkanna. Það verður hins vegar mjög erfitt að koma saman fimm flokka ríkisstjórn.

Nái flokkarnir fimm ekki saman verður allt galopið. „Þá opnast Pandórubox og þá rofnar í raun miðvinstriblokkin og menn gætu farið að keppast um það að starfa með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka