Helgi Bjarnason, Jón Þórisson og Kristján Johannessen
Stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir sem hafa verið í viðræðum um samstarf eftir kosningar tapa samanlögðu fylgi, samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið. Flokkarnir fengju 33 þingmenn, sem dugar til að mynda ríkisstjórn. Fá þeir þremur þingmönnum færri en síðasta könnun gaf til kynna.
Bjarni Benediktsson segir að samkvæmt þessu stefni í vinstristjórn á Íslandi. Það myndi þýða „mjög veika ríkisstjórn fjögurra flokka [...],“ segir Bjarni. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segist ekki óttast að fjögurra flokka ríkisstjórn verði veik verði hún stofnuð.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi í þessari könnun og tekur forystuna af Pírötum, sem voru efstir í könnun sem gerð var um miðjan mánuðinn. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 22,5% atkvæða og 16 þingmenn, sem er heldur meira en í síðustu könnun. Píratar fengju um 21% og 14 þingmenn, sem er minna en síðast. Vinstri græn fengju tæp 17% og 11 þingmenn, sem er minna en í síðustu könnunum. Viðreisn er með 11% fylgi og Framsókn 10% og báðir flokkarnir fengju 7 þingmenn. Björt framtíð mælist með tæplega 7% fylgi og Samfylkingin tæp 6% og báðir flokkar fengju 4 þingmenn. Aðrir flokkar fengju ekki menn kjörna.
Ef þetta yrðu úrslit kosninga myndu tveir formenn stjórnmálaflokka, sem ná mönnum á þing, ekki fá kosningu. Það eru Oddný G. Harðardóttir, Samfylkingu, sem einnig var utan þings samkvæmt könnun um miðjan október, og Benedikt Jóhannesson í Viðreisn, sem býður sig fram í Norðausturkjördæmi.