Kjörfundur hófst á flestum stöðum klukkan 9 og verða flestir kjörstaðir opnir til klukkan 22 í kvöld. Búast má við fyrstu tölum fljótlega eftir að kjörstöðum verður lokað og hægt verður að fylgjast með gangi mála hér á mbl.is.
Að þessu sinni eru 12 stjórnmálaflokkar sem bjóða fram lista og eru 1.302 einstaklingar í framboði til Alþingis.
Meðalaldur frambjóðenda í fjórum efstu sætum er lægstur í Suðvesturkjördæmi, 43 ár, og hæstur í Norðausturkjördæmi, 49 ár. Yngsti frambjóðandinn að þessu sinni er 18 ára gamall.
Allar upplýsingar um kjörstaði og hvar er hægt að kjósa er að finna á vef innanríkisráðuneytisins, kosning.is.
Í framboði eru 716 karlmenn og 586 konur, og karlar eru því 55% af heildinni.
Fjöldi nýrra kjósenda sem gátu ekki vegna aldurs kosið í síðustu alþingiskosningum árið 2013 er 15.743. Breyting milli áranna 2013 og 2016 er því 3,6%.
Í ár er fjöldi kjósenda alls 246.515, en þeir voru árið 2013 237.957 talsins.