Kjörsóknin gæti skipt miklu máli

Klukkan 18 höfðu 50,52% á kjörskrá í Reykjavík skilað inn …
Klukkan 18 höfðu 50,52% á kjörskrá í Reykjavík skilað inn atkvæði mbl.is/Eggert Jóhannesson

Klukkan 18 höfðu 50,52% á kjörskrá í Reykjavík skilað inn atkvæði og 43,6% í Suðvesturkjördæmi klukkan 17. Baldur Þórhallsson, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir stóran hluta kjósenda enn eiga eftir að fara á kjörstað og að ótímabært sé að hafa áhyggjur af dræmri kjörsókn.

Kjörsóknin fór rólega af stað í dag og klukkan 15 í dag var hún minni nú en fyrir síðustu alþingiskosningar í öllum kjördæmum. Svo virðist sem hún sé að aukast núna og klukkan 18 höfðu 400 fleiri kosið í Reykjavík heldur en á sama tíma í síðustu kosningum.

„Það eru margir sem kjósa frekar seint og þá getur verið að veðrið hafi dregið úr kjörsókninni fyrri hluta dagsins,“ segir Baldur. Hann segir að kjörsókn gæti skipt meira máli í þessum kosningum en oft áður.

Baldur Þórhallsson
Baldur Þórhallsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Kjörsóknin mun held ég skipta miklu máli, einkum og sér í lagi kjörsókn ungs fólks,“ segir Baldur.  „Skoðanakannanir sýna að ungt fólk er líklegra til að kjósa Pírata en þeir sem eldri eru og eldri kjósendur mæta mun betur en þeir yngri. Við höfum vísbendingar úr könnun sem gefa það til kynna að stuðningsmenn Pírata séu síður líklegir til að mæta á kjörstað en kjósendur Sjálfstæðisflokksins. Þetta gæti skipt máli í kvöld.“

Baldur segir ýmsar mögulegar ástæður fyrir dræmri kjörsókn ungs fólks. „Þrátt fyrir að Píratar hafi verið áberandi í síðustu borgarstjórnarkosningum voru þeir ekkert endilega að ná ungu fólki á kjörstað. Ungt fólk hafði aldrei mætt verr en í síðustu borgarstjórnarkosningum. Þetta er hópur sem af einhverjum ástæðum virðist ekki hafa áhuga á hefðbundnum stjórnmálum. En mín reynsla er sú að ungt fólk er bullandi pólitískt, hefur áhuga og æsir sig yfir þjóðfélagsmálum, en segir sig síðan ekki pólitískt eða vill ekki gera upp á milli flokkanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka