Töluverðar sveiflur hafa verið á fylgi flokkanna að undanförnu en í dag er komið að því að niðurstaðan fáist. Hvaða flokkar mynda næstu ríkisstjórn. Mikill munur er á fylgi flokkana eftir kjördæmum.
Eins og fram hefur komið hefur Félagsvísindastofnun Háskólans unnið fjórar vikulegar kannanir í október á fylgi stjórnmálaflokka fyrir Morgunblaðið. Sú nýbreytni við gerð kannananna fyrir þessar kosningar að afstaða er könnuð jafnt og þétt yfir alla vikuna auðveldar að fylgjast með breytingum sem verða dag frá degi í kosningabaráttunni, þar sem alla jafna berast jafn mörg svör á hverjum degi. Þetta gerir til að mynda kleift að greina hvort tiltekin atvik í kosningabaráttunni hafi áhrif á fylgi framboða.
Hér til hliðar getur að líta fylgi þeirra stjórnmálaflokka sem ná munu manni á þing væri um úrslit kosninga að ræða, mælt daglega í október. Fylgið er sýnt með línu og hver flokkur auðkenndur með lit þannig að auðvelt ætti að vera að rekja sig eftir línunni.
Af myndinni sést að fylgi Pírata mældist í upphafi mánaðarins 22%. Hæst mældist það 24% þann 15. október, daginn fyrir tilkynningu þeirra um fundarboð til stjórnarandstöðuflokka. Frá þeim degi lækkaði fylgið nokkuð afgerandi, en hækkar aftur í lok mælingatímans og lokamæling fylgis þeirra sýnir 21%.
Sjálfstæðisflokkur mældist með 22% fylgi í upphafi mánaðarins og reis nokkuð fyrstu dagana á eftir og náði 29% þann 4. október. Upp frá því lækkaði fylgið nokkuð og féll niður í 19% dagana 16.-18. október en reis á ný, um það leyti sem fyrrgreindur fundur stjórnarandstöðuflokka var í umræðunni, og lokamæling þann 26. október sýndi 23% fylgi.
Vinstri grænir mældust með 24% fylgi þann 1. október en það féll nokkuð næstu daga á eftir og sveiflaðist nokkuð fyrstu vikuna. Hæst mældist fylgið 20% ef undan er skilinn fyrsti dagurinn og var fylgi flokksins 17% þann 26. október.
Framsóknarflokkur mældist með 7% fylgi á fyrsta degi mánaðarins og jókst fylgið í 12% dagana 4. og 5. október. Upp frá því féll það nokkuð og 7. október mældist það 6%. Það hefur síðan heldur aukist og mælist 11% í lok tímabilsins sem mælt var.
Í upphafi mánaðarins mældist fylgi Viðreisnar 8%. Það jókst fram eftir mánuðinum og mældist mest 14% þann 22. og 23. október. Fylgi Viðreisnar mælist 10% á lokadegi mælingarinnar.
Fylgi Bjartrar framtíðar hefur sveiflast nokkuð í mánuðinum. Fyrsta mælingin sýndi 4% fylgi sem óx svo eftir því sem leið á mánuðinn og var mest 9% um miðbik hans en gaf svo eftir á ný. Fylgið óx svo aftur er leið á og síðasta mæling sýndi 7%.
Samfylking mældist með 6% fylgi í upphafi mánaðarins. Flokkurinn náði svo 9% fylgi þann 6. október. En frá 18. október féll það nokkuð og varð lægst 5%. Lokamæling síðustu könnunarinnar sýndi fylgi Samfylkingarinnar í 6%.
Þá er einnig forvitnilegt að sjá þann mun sem er á milli kjördæma þegar kemur að fylgi stjórmálaflokka samkvæmt könnuninni. Hér til hliðar á síðunni eru skífurit fyrir hvert hinna sex kjördæma landsins, sem sýna fylgi þeirra sjö framboða sem könnunin sýnir að ná munu manni inn á þing. Jafnframt eru nöfn þeirra frambjóðenda í hverju kjördæmi sem könnunin sýnir að ná muni kjöri væri um úrslit kosninga að ræða.
Þannig mælist Sjálfstæðisflokkurinn með mest fylgi í Suðurkjördæmi eða 31%.
Mest fylgi við Pírata í könnuninni er í Reykjavíkurkjördæmi norður, eða 27%. Þá er fylgi Vinstri grænna mest í Norðvesturkjördæmi, 22%. Sömu sögu er að segja af Framsóknarflokki sem nýtur mests fylgis í Norðvesturkjördæmi eða 21%. Fylgi Viðreisnar virðist mest í Suðvesturkjördæmi, en könnunin sýnir að fylgi flokksins í kjördæminu er 16%. Samfylking nýtur mests fylgis í Reykjavíkurkjördæmi norður en þar mælist fylgið 10%. Að síðustu er svo að sjá að fylgi Bjartrar framtíðar sé mest í Suðvesturkjördæmi. Þar segjast 9% svarenda í könnuninni ætla að kjósa Bjarta framtíð.